Stúlkur í Pilsaþyt spiluðu opnunarleik götukörfuboltamótsins á 17. júní

Pilsaþytsstúlkur vígreifar á 17. júní. MYNDIR AF SKAGAFJÖRÐUR.IS
Pilsaþytsstúlkur vígreifar á 17. júní. MYNDIR AF SKAGAFJÖRÐUR.IS

Á heimasíðu Skagafjarðar má finna fjölda mynda frá þjóðhátíðardeginum á Króknum. Veður var hið besta í Skagafirði þann 17. júní en Skagfirðingar fengu dass af hitabylgjunni sem þeir fyrir austan hafa gortað sig af síðustu vikurnar. Það voru því eðlilega margir sem brugðu undir sig betri fætinum og röltu á hátíðarsvæðið sunnan íþróttahússins.

Í fréttinni á Skagafjörður.is segir meðal annars: „Atli Gunnar Arnórsson hóf dagskrána á hátíðarræðu. Atla þekkja margir, en hann er verkfræðingur og formaður Karlakórsins Heimis. Laufey Harpa Halldórsdóttir tók að sér hlutverk fjallkonunnar og fylgdu meðlimir Pilsaþyts Laufeyju á svið en þær saumuðu einmitt hinn glæslilega fjallkonubúning sem Laufey klæddist. Leikfélag Sauðárkróks steig á svið og flutti nokkur lög úr leikritinu Benedikt búálfi sem þau koma til með að sýna í Bifröst í haust. Tónlistarmaðurinn og Skagfirðingurinn Atli Dagur Stefánsson lauk svo dagskrá á sviði með flutningi á frumsömdum lögum.“

Margt annað var brallað þennan dag, teymt var undir börnum á hestbaki og hægt var að nálgast candyfloss og blöðrur. Fornbílaeigendur fóru rúnt, hægt var að komast í kaffihlaðborð á nokkrum stöðum og þá fór fram götukörfuboltamót á bláa vellinum austan Árskóla. Á Facebook-síðu Skagafjarðar segir að leikið hafi verið í tveimur flokkum, 16 ára og eldri og 15 ára og yngri. Góð þátttaka var í mótinu en ellefu lið voru skráð í yngri flokknum og 4 lið í eldri flokknum. Meðlimir Pilsaþyts spiluðu opnunarleik mótsins en mögulega er þetta í fyrsta sinn þar sem keppendur í báðum liðum klæðast íslenska þjóðbúninginum í körfuboltaleik.

Allt í allt vel heppnaður 17. júní í Skagafirði. Myndirnar hér að neðan eru af heimasíðu og Facebook-síðu Skagafjarðar en þar má sjá miklu fleiri myndir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir