Telur mikilvægt að fara vel útbúinn á gosstöðvarnar

Sigurður Ingi Pálsson fór á gosstöðvarnar á dögunum og tók meðfylgjandi myndir. Hann segir að fyrir þá sem hafa áhuga á að fara að gosinu til að mynda væri gott ráð að taka með sér a.m.k. 100mm linsu.
Sigurður Ingi Pálsson fór á gosstöðvarnar á dögunum og tók meðfylgjandi myndir. Hann segir að fyrir þá sem hafa áhuga á að fara að gosinu til að mynda væri gott ráð að taka með sér a.m.k. 100mm linsu.

Margir hafa lagt leið sína á gosstöðvarnar í Geldingadölum og fjölmargar myndir hafa birst á öllum miðlum. Einn af göngugörpunum er Sigurður Ingi Pálsson, á Sauðárkróki en hann fór upp á Fagradalsfjall klukkan 8 á skírdag 1. apríl og var kominn að gossvæðinu rúmum klukkutíma seinna. Hann segir hljóðin og það sem fyrir augum bar hafa verið mikið stórfenglegra en það sem vefmyndavélar hafa sýnt hingað til.

„Það var blautt, kalt og smá gola á svæðinu og gangan var mun erfiðari en ég gerði ráð fyrir. Það er erfiðara að komast að gosinu en ég hélt. Reyndar er búið að loka gönguleiðinni sem ég notaði þegar þetta er skrifað en kaðallinn hjálpaði mörgum að komast alla leið. Á þessum degi voru talsvert færri á svæðinu en dagana á undan og auðvelt að koma sér vel fyrir í brekkunni á meðan maður fékk sér af nestinu sem ég tók með mér. 
Núna hefur landslagið þarna uppfrá breyst mikið síðan þessar myndir voru teknar. Þrjár nýjar sprungur opnar og hættan orðin augljósari,“ útskýrir Sigurður Ingi.

Hann segir að fyrir þá sem hafa áhuga á að fara að gosinu til að mynda væri gott ráð að taka með sér a.m.k. 100mm linsu. Sjálfur var hann með 85mm og segir það ekki hafa dugað nógu vel að hans mati. „Hraunið í kring vex á hverjum degi og erfiðara er að mynda gígana sjálfa úr fjarlægð ef maður er ekki með nógu mikið zoom á linsunni. 100-400 mm er eitthvað sem ég hefði tekið með mér ef ég hefði kost á því.“

Þrátt fyrir neikvæða umræðu um þá sem fara að gosinu hvetur Sigurður Ingi alla sem hafa heilsu til að fara á svæðið í góðu veðri, eða taka þyrluflug yfir svæðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir