Ætlaði að lesa og prjóna meira á árinu

Meðfylgjandi mynd er tekin á ferðalagi um Vestfirði í sumar, nánar tiltekið í Breiðavík, segir Dagný Rósa. AÐSEND MYND
Meðfylgjandi mynd er tekin á ferðalagi um Vestfirði í sumar, nánar tiltekið í Breiðavík, segir Dagný Rósa. AÐSEND MYND

Dagný Rósa Úlfarsdóttir svarar ársuppgjöri Feykis. Hún starfar sem kennari í Höfðaskóla á Skagaströnd en býr á Ytra-Hóli 1 í Skagabyggð með Birni Björnssyni. „Mér þykir miður að þurfa að vera á neikvæðu nótunum hér en líklegast eru það náttúruhamfarir, stríð og verðbólga,“ segir hún þegar Feykir spyr hvaða þrjú orð lýsi árinu.

Hver er maður ársins? – Þetta er erfitt val, því mörg gætu fengið þennan titil. Við eigum t.d. frábært íþróttafólk hér á Norðurlandi vestra sem ættu tilkall til þessa titils en ég ætla að nefna Karólínu í Hvammshlíð vegna hennar óbilandi seiglu í baráttunni gegn riðuveiki á landinu.

Hver var uppgötvun ársins? – Ætli það hafi ekki verið hversu góðir mér fannst vegirnir á Vestfjörðum vera, þegar ég fór þangað í sumar. Allavegana voru sumir þeirra eins og hraðbraut í samanburði við malarvegina okkar hér á Norðurlandi vestra.

Hvað var lag ársins? – Ég er svo mikill Eurovisionaðdáandi að ég verð að segja Cha Cha Cha með finnska snillingnum Käärijä.

Hvað gerðirðu ekki á árinu sem þú ætlaðir þér að gera? – Örugglega margt sem ég man svo ekki eftir þegar ég ætla að rifja það upp. Ég held samt að ég hafi ætlað mér að lesa fleiri bækur og prjóna fleiri flíkur en ég gerði.

Hvers er eftirminnilegast frá árinu 2023? – Svona á persónulegu nótunum er það ferming yngsta barnsins, útskrift miðbarnsins úr grunnskóla og þess elsta úr háskóla, hér í nærsamfélaginu er það ljósastauravæðing heimreiða í Skagabyggð og opnun nýs Þverárfjallsvegar/Skagastrandarvegar og á landsvísu er það rýming Grindavíkur og ástandið þar í nágrenninu og aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart sjókvíalaxeldi og strokulöxunum.

Hvaða þrjú orð lýsa árinu best? – Mér þykir miður að þurfa að vera á neikvæðu nótunum hér en líklegast eru það náttúruhamfarir, stríð og verðbólga. Þetta segir sig kannski sjálft, náttúran hefur heldur betur minnt á sig, bæði hér á landi og erlendis, hörmuleg stríð úti í heimi sem virðast ekki ætla að taka enda og svo verðbólguástandið hér á landi sem hefur gríðarlegar neikvæðar afleiðingar.

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? – Neikvæðum nöldrurum á netmiðlum, held að það segi sig alveg sjálft.

Hvað viltu sjá gerast árið 2024? – Það er ansi margt, t.d. ný störf og fjölbreyttari atvinnutækifæri í A-Hún., fleiri íbúðir hér og í framhaldinu fjölgun íbúa á svæðinu. Svo held ég að við viljum öll heimsfrið og lægri verðbólgu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir