Ásdís Brynja er Íþróttamaður USAH 2023

Ásdís Brynja við afhendinguna í gærkvöldi. MYND AF FB-SÍÐU USAH
Ásdís Brynja við afhendinguna í gærkvöldi. MYND AF FB-SÍÐU USAH

Í gær var tilkynnt um valið á Íþróttamanni USAH 2023 við hátíðlega athöfn í íþróttamiðstöðinni á Blönduósi. Fyrir valinu að þessu sinni varð Ásdís Brynja Jónsdóttir knapi frá Hestamannafélaginu Neista.

Auk hennar voru Sigurður Bjarni Aadnegard fyrirliði Kormáks/Hvatar í fótboltanum en liðið tryggði sér í sumar sæti í 2. deild, Haraldur Holti Líndal frá Markviss en hann er ungur og bráðefnilegur skotmaður sem var að gera góða hluti á árinu, Kristinn Bjarni Andrason er mjög efnilegur knattspyrnumaður en þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára spilaði hann alla leiki Kormáks/Hvatar á sögulegu tímabili liðsins, Elyass Kristinn Bouanba frá Markviss er líkt og Haraldur Holti bráðefnilegur skotmaður sem átt hefur góðu gengi að fagna í ár.

Í rökstuðningi með tilnefningu Ásdísar Brynju, sem hlaut titilinn Íþróttamaður USAH 2023, segir: „Ásdís Brynja gerði það virkilega gott í keppni á árinu en hún var staðsett á Suðurlandi og keppti því aðallega þar sem félagi Neista. Hún keppti á Hátíð frá Söðulsholti. Hún tók þátt í parafimi í Suðurlandsdeildinni og enduðu þær í 7. sæti. Á WR móti Sleipnis tók hún þátt í fimmgangi F2 og lenti í 8. sæti. Á WR íþróttamóti Geysis tóku þær stöllur þátt í fimmgangi F2 og enduðu í 10. sæti. Á opnu gæðingamóti Geysis tóku þær þátt í A-flokki og enduðu í 15. sæti með einkunnina 8,21. Á WR Suðurlandsmóti Geysis tóku þær þátt í gæðingaskeiði PP1 1. flokk og enduðu í 3. sæti.

Þetta er aðeins brot af keppnisárangri þeirra Hátíðar en þær stóðu sig virkilega vel á síðasta keppnisári.“

Feykir óskar Ásdísi Brynju til hamingju með heiðurinn. Nánar má lesa rökstuðning með þeim sem tilnefndir voru á Facebook-síðu USAH og þar má einnig finna fjölda mynda frá athöfninni í gær.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir