Eldurinn hefst í dag

Frá Eldinum 2016. Mynd: Facebooksíða Elds í Húnaþingi.
Frá Eldinum 2016. Mynd: Facebooksíða Elds í Húnaþingi.

Hátíðin Eldur í Húnaþingi verður sett klukkan 19:00 í dag á Hvammstanga. Að þessu sinni verður opnunarhátíðin sérlega glæsileg en hún hefst með skrúðgöngu frá Félagsheimilinu sem endar á hafnarsvæðinu hjá Sjávarborg. Í fararbroddi verða eldfuglar og fleiri skemmtilegar verur ásamt því sem tónlist og almenn gleði verður í göngunni. Niðri á hafnarsvæðinu tekur Eldurinn á móti hátíðargestum og geta þeir hlýtt á tónlist, gætt sér á kjötsúpu, fylgst með Húlludúllu leika listir sínar, keypt góðgæti í Elds-sjoppunni og ýmislegt fleira skemmtilegt.

Nytjamarkaður Gæranna verður með sérstaka opnun í dag af tilefni hátíðarinnar en þar verður opnað kl. 18:00. Á markaðnum er margvíslegt góss að finna og hafa Gærurnar varla haft undan við að taka á móti vörum í sumar. Markaðurinn er staðsettur ská á móti Landsbankanum og verður hann einnig opinn á laugardaginn frá klukkan 11:00 til 16:00 og á sunnudaginn frá klukkan 11:00 til 14:00.

Fókus-hópurinn verður svo með tónleika í Sjávarborg klukkan 22:30 í kvöld. Hópurinn er skipaður fimm söngvurum sem tóku þátt í Voice í ár og eru tveir Húnvetningar í hópnum, þau Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir og Sigurjón Örn Böðvarsson. Að auki eru í hópnum þau Karítas Harpa Davíðsdóttir, Eiríkur Þór Hafdal og Rósa Björg Ómarsdóttir. Aldurstakmarkið er 18 ár og miðaverð er 2.500 krónur.

Það er óhætt að segja að dagskrá hátíðarinnar sé stútfull af skemmtilegum viðburðum og námskeiðum sem ættu að geta kætt hvern sem er. Hátíðin stendur fram á sunnudag.

Sjá nánar á heimasíðu Elds í Húnaþingi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir