Gamlar perlur dregnar fram

Valmar og Alexander á æfingu.MYND GG
Valmar og Alexander á æfingu.MYND GG

Karlakórinn Heimir stendur á tímamótum, en afgerandi kaflaskil urðu í sögu kórsins nú í haust við sviplegt andlát Stefáns Reynis Gíslasonar, stjórnanda kórsins til áratuga. Það varð Heimismönnum hins vegar strax ljóst að ekki þýddi að leggja árar í bát, þó höggið hafi verið þungt, og tekin var sú ákvörðun að ljúka afmælistónleikaröð Óskars Péturssonar, sem var hálfnuð þegar þarna var komið sögu.Ákvörðunin um að ljúka þeirri tónleikaröð var ekki auðveld, að sögn Atla Gunnar Arnórssonar formanns kórsins, „en það tókst að ljúka því verkefni með sóma, þar sem byggt var á því veganesti sem Stefán hafði látið okkur í té og hann var nú einu sinni þannig gerður að uppgjöf var ekki til í hans orðabók“ segir Atli.

Í framhaldinu var svo farið að skoða leiðir til þess að halda starfsemi kórsins áfram með einhverjum hætti og að halda hina hefðbundnu áramótatónleika kórsins í Miðgarði. Böndin bárust strax að Valmari Väljaots, sem búinn var að starfa með kórnum um skeið sem undirleikari, alveg síðan Thomas Higgerson lét af störfum vegna augnsjúkdóms fyrir fáum árum. Valmar féllst á að taka að sér stjórn kórsins á áramótatónleikunum og hefur undirbúningur vegna þeirra staðið yfir síðan í byrjun nóvember. Valmar er enginn nýgræðingur í kórstjórn, en hann stjórnar m.a. Karlakór Akureyrar-Geysi og Kvennakór Akureyrar, auk þess sem hann er organisti í Glerárkirkju. „Okkur þykir ákaflega vænt um að Valmar skyldi taka vel í þetta og erum honum afar þakklátir að gefa sér tíma í þetta verkefni með okkur“ segir Atli Gunnar.

Meðleikari kórsins á tónleikunum er ungur píanóleikari frá Akureyri sem heitir Alexander Smári Kristjánsson Edelstein, af þekktu kyni tónlistarmanna fyrir norðan. „Það er mikill fengur að fá Alexander til liðs við okkur, hann er klassíkt menntaður píanóleikari með próf frá Listaháskólanum, auk þess að hafa sótt sér framhaldsmenntun til Hollands. Alexander er afburðaflinkur tónlistarmaður og það er okkur Heimismönnum mikils virði að fá hann til liðs við okkur, sérstaklega á þessum tímapunkti“ segir Atli.

Með aðstoð þessara góðu manna, Valmars og Alexanders, sem báðir voru tilbúnir að ráðast í þetta verkefni með stuttum fyrirvara, stefna Heimismenn því á að halda áramótatónleika í Miðgarði laugardagskvöldið 30. desember næstkomandi. „Notast verður við lög sem kórinn þekkir vel og gamlar perlur dregnar fram, en það eru nú einu sinni þau lög sem fólk hefur hvað mesta ánægju af að heyra“ segir Atli Gunnar, enda tími til æfinga knappur.

Snorri Snorrason tenór og félagi í kórnum syngur einsöng og einnig var haft samband við Óskar Pétursson sem alltaf er boðinn og búinn að koma fram með þeim Heimismönnum. Það er síðan um það bil hérna í greininni sem blaðamaður Feykis verður vanhæfur við skrifin því undirrituð á að syngja ásamt systur sinni með kórnum á umræddum tónleikum og því ekki úr vegi að halda áfram að vera vanhæf og hvetja alla sem þetta lesa til að mæta á tónleikana, sem verða þó aldrei eins án Stefáns, en uppgjöf er ekki inn í myndinni hjá Heimismönnum eins og fram hefur komið. Forsala fer fram á N1 á Sauðárkróki og Olís Varmahlíð. Tónleikarnir verða haldnir í Miðgarði 30. desember kl. 20:00.

Greinin var birt í 48.tbl. Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir