Hurðaskellir, gluggagægjar, heitar gellur og graðnaglar :: Leikfélag Sauðárkróks sýnir Nei ráðherra

Í lok frumsýningar á Nei ráðherra var tekin sjálfa með leikurum, starfsfólki og gestum. Mynd: Leikfélag Sauðárkróks
Í lok frumsýningar á Nei ráðherra var tekin sjálfa með leikurum, starfsfólki og gestum. Mynd: Leikfélag Sauðárkróks

Undirrituð skellti sér einu sinni sem oftar á leiksýningu nú í upphafi Sæluviku, enda áhugamanneskja um slíkar sýningar. Það liggur í loftinu að fólk er orðið menningarþyrst eftir svelti í þeim efnum um tveggja ára skeið, sem skilaði sér bæði í leikgleði og viðbrögðum áhorfenda. Á sviðið voru mættar sögupersónur í sköpunarverki Ray Cooney, sem ku vera konungur farsanna. Hurðafarsi sem stendur sannarlega undir nafni, því það er ekki nóg með að hurðum sé skellt heldur gluggum líka. Efnið er, eins og oftast í slíkum verkum, framhjáhald og misskilningur sem vindur upp á sig.

Sviðsmyndin var sannfærandi og dró mann strax inn á Hótel Borg, vettvang framhjáhalds aðalsögupersónunnar. Þó að verkið sé ekki nýtt af nálinni má samt tengja það við nútímann, og -með fullri virðingu fyrir flestum stjórnmálamönnum- spillingu nútímans og siðleysi. Sögutíminn er þó í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur, þó að ýmsir frasar og (á tíðum nokkuð gróft) orðfæri leikaranna sé oft nær nútímanum. Þarna hefur skemmtileg þýðing og staðfæring Gísla Rúnars Jónssonar líka mikið að segja, hún er það góð að ef maður vissi ekki betur gæti verið um verk eftir íslenskan höfund, eða einhvern „kunnugan staðháttum“ að ræða.

Leikfélagið hefur á að skipa miklum reynsluboltum og margir þeirra tóku þátt í þessari sýningu. Einnig koma fram yngri leikarar og standa sig með mikilli prýði. Fanney Rós leikur þjónustustúlku af erlendu bergi brotna og skilar því frábærlega. Sama má segja um Þorgrím Svavar í hlutverki hins skapheita eiginmanns, það hefur verið gaman að fylgjast með honum á sviðinu frá því í barnaskóla og eflaust eigum við eftir að sjá þessi tvö oft í framtíðinni. Þá skapa þeir Ingi Sigþór og Árni Jóns skemmtilegar persónur í þjónshlutverkum sínum og svipbrigði þeirra beggja eru óborganleg. Eiginkonurnar, leiknar af Ingu Dóru og Elínu Petru og voru þær báðar mjög öruggar og skemmtilegar á sviðinu.

Ekki er nú auðveldast að leika lík, eða að vera kona í karlhlutverki, en það ferst Jóhönnu Sigurlaugu vel úr hendi. Frændsystkinin Guðbrandur og Elfa Björk eru frábær að vanda og einhvern veginn tekst þeim að gera allar persónur broslegar. Hinn margræði persónuleiki Guðbrands, Guðfinnur Maack, er kostulegur á köflum. Loks er að telja aðalpersónuna, ráðherrann sjálfan, sem leikinn er af Hauki Skúla. Hann virðist einfaldlega vera jafnvígur á flest hlutverk, hvort sem það er Mikki refur, sem hann skilaði svo eftirminnilega á sínum tíma, eða ráðherrann. Og þegar betur er að gáð eru þessi hlutverk kannski ekki jafn ólík og virðist í fyrstu. Báðir sigla undir fölsku flaggi og eru satt best að segja bölvaðir refir.

Leikhópurinn hefur ekki setið auðum höndum frekar en fyrri daginn og leikstjórinn skilar vel kláruðu verki. Það mætti segja mér að hann þekki hópinn vel, enda þriðja uppsetning sem hann kemur að á Króknum. Þarna reynir mikið á nákvæmar tímasetningar og innkomur og þar klikkar ekkert. Sama var að segja um textameðferð, enginn frumsýningarbragur á neinu slíku. Leikstjóranum virðist lagið að laða fram það besta í hverjum og einum og stinga inn óvæntum uppákomum sem gera sýninguna enn skemmtilegri. Alla vega skemmtum ég og sessunautur minn okkur vel og margir hafa eflaust virkjað hláturvöðvana eftir eitthvert hlé þar á.

Til hamingju með skemmtilega sýningu leikhópur LS og Jóel leikstjóri! Ég hvet alla til að skella sér í leikhús og nýta sér þá viðburði sem Sæluvikan býður upp á. Fyrir þeim hefur talsvert verið haft og tugir ef ekki hundruð fólks komið þar að. Það er ekki sjálfgefið að við skulum eiga vel yfir hundrað ára gamla menningarhátíð og henni ber að halda lifandi og skemmtilegri. Án virkrar þátttöku gesta verður það ekki gert.
@Kristín Sigurrós Einarsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir