Hver á sér fegra föðurland á laugardaginn?

Þann 1. desember verður öld liðin frá því að Ísland fékk fullveldi frá Danakonungi og verður þess minnst í tali og tónum í Menningarhúsinu Miðgarði nk. laugardagskvöld kl. 20 undir yfirskriftinni: „Hver á sér fegra föðurland“.

Dagskráin verður borin uppi af tveimur kórum héraðsins, Kvennakórnum Sóldísi og Karlakórnum Heimi. Valin verða lög til flutnings er varpa ljósi á sögu fullveldisins og síðar lýðveldisins Íslands í 100 ár. Í dagskrárkynningu segir að reynt verði að höfða til allra aldurshópa í lagavali og draga fram mikilvægi þess að fá að lifa í frjálsu og fullvalda landi.

Kvennakórinn Sóldís

„Þetta er í tilefni af aldarafmæli fullveldisins en  Karlakórinn Heimir og Kvennakórinn Sóldís syngja þarna sex til sjö lög hvor. Svo syngja kórarnir saman í fyrsta skiptið tvö lög í lokin,“ segir Agnar Gunnarsson fv. oddviti Akrahrepps, en hann á veg og vanda af skipulagningu atburðarins. Hann segir marga koma að því að lesa á milli laga, bæði karlar og konur, en stiklað verður á því stærsta í heiminum, Íslandi og héraðinu á þessum 100 árum. Meðal annarra atriða munu Matthildur Ingimarsdóttir, á Flugumýri, syngja við undirleik Sæþórs Hinrikssonar, Syðstu-Grund.

Karlakórinn Heimir

 

„Þetta lítur vel út, verður um tveggja tíma dagskrá með hléi. Aðgangur er 1000 kall inn rétt til að dekka húsaleiguna,“ segir Agnar.

En er pláss fyrir tvo kóra á sviðinu?
„Ja, þeir hafa ekki kvartað ennþá þannig að ég held að það verði að reyna á það. Eru ekki allir bræður og systur þegar svona er komið og geta haldið hvert á öðru ef þarf.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir