Jólahúnar komu tónleikagestum í jólaskap

Frá tónleikum Jólahúna á Skagaströnd. Mynd: KSE
Frá tónleikum Jólahúna á Skagaströnd. Mynd: KSE

Jólahúnum vel tekið á fernum tónleikum

Eins og Feykir greindi frá stóðu Jólahúnar fyrir fernum jólatónleikum í Húnavatnssýslum um síðustu helgi. Voru þeir á Skagaströnd og Blönduósi auk þess sem tvennir tónleikar voru haldnir á Laugarbakka. Meðfylgjandi myndir tók Ásdís Birta Árnadóttir á Skagaströnd og fékk Feykir leyfi til að birta þær.

Á Húnahorninu er haft eftir Jólahúnum að tónleikarnir hafi allstaðar gengið vel og viðtökur verið afskaplega góðar. Til marks um ánægju tónleikagesti hafi þeir fengið óspart hrós og hamingjuóskir og eru þeir mjög þakklátir fyrir það. Aðsókn var með ágætum og má nefna að um 180 tónleikagestir mættu á tvenna tónleika á Laugarbakka.

Söngvarar á tónleikunum komu frá Skagaströnd, Blönduósi og Húnaþingi vestra og hljóðfæraleikarar frá Hvammstanga. Á öllum stöðunum voru veitingar í hléi og ávörp leikmanna. Fluttu þeir tónleikagestum góðan og hlýlegan boðskap. Guðmundur Egill Erlingsson flutti ávarp á Skagaströnd, Berglind Björnsdóttir á Blönduósi og Einar Georg Einarsson á Laugarbakka. Fá þau bestu þakkir fyrir.

Jólahúnarnir eru þau Skúli Einarsson (umsjón og skipulag), Daníel Geir Sigurðsson (bassi og tónlistarstjórn), Guðmundur Hólmar Jónsson (gítar), Elinborg Sigurgeirsdóttir (hljómborð), Sigurvaldi Í. Helgason (trommur og tæknistjórn) og Ellinore Anderson (lágfiðla). Gunnar Smári Helgason sér um hljóðblöndun. „Við vonum að einkunnar orð tónleikanna, samstaða og kærleikur, hafi smitað út frá sér og hafi góð áhrif í aðdraganda jóla,“ sagði Skúli Einarsson einn Jólahúnanna í samtali við Húnahornið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir