Kvenfélag Svínavatnshrepps hélt upp á 150 ára afmælið með kökuveislu af gamla skólanum

Kvenfélagskonur úr Austur-Húnavatnssýslu fögnuðu tímamótunum. MYNDIR AÐSENDAR
Kvenfélagskonur úr Austur-Húnavatnssýslu fögnuðu tímamótunum. MYNDIR AÐSENDAR

Kvenfélag Svínavatnshrepps hélt upp á 150 ára afmæli sitt 20. apríl sl. Var öllum kvenfélagskonum í Austur-Húnavatnssýslu boðið í kaffi í Dalsmynni. Þar var mikil kökuveisla sem einkenndist af því að hafa kaffibrauð sem hugsanlega hefði getað verið á borðum er kvenfélagið var stofnað.

Fyrir tíu árum þegar kvenfélagið varð 140 ára héldu konur í félaginu hóf og einnig handverks-sýningu í Dalsmynni. Það tókst mjög vel og var það félagskonum mikil ánægja að vera þarna staddar tíu árum seinna með félag sem ekki er síður öflugt en var þá.

Kvenfélag Svínavatnshrepps var stofnað að Sólheimum 25. nóvember 1874. Það voru átta konur í Svínavatnshreppi sem stofnuðu það. Það er skemmtilegt til þess að hugsa að eftir öll þessi ár er frekar öflugt starf í félaginu.

Hafa látið gott af sér leiða

Félagið hefur á hverju ári safnað peningum sem það hefur fengið með kaffisölu, dúkaleigu og ýmsu fleiru sem síðan er gefið til góðgerðarmála, hafa Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar á Blöndu-ósi, Jólasjóður Rauða krossins í A-Hún, Heimilisiðnaðarsafnið, skólar og leikskólar á svæðinu og fleiri notið góðs af. Einnig er félagið að greiða styrktarlínur ýmsra samtaka.

Það má einnig geta þess að kvenfélagskonur hafa tekið þátt í ýmsum námskeiðum, til dæmis í listmálun, mála á keramik og handverk ýmiss konar.

Framundan á vegum félagsins er heilmikil dagskrá. Félagið mun sjá um veitingar á ýmsum fundum, 1. maí kaffi fyrir stéttarfélagið Samstöðu, sölu á opnunarhátíð í Listakoti Dóru í júlí og síðan vera með sölu í samstarfi við Kvenfélag Bólstaðar-hlíðarhrepps 17. júní á Blönduósi. Einnig sölu á Húnavöku en það samstarf byrjaði sl. sumar og hefur gengið mjög vel.

Afmæliboðið var hið ánægjulegasta og færðu hin fimm kvenfélögin á svæðinu Kvenfélagi Svínavatns-hrepps að gjöf 50 þúsund krónur sem runnu til Heimilisiðnaðarsafnsins.

/Frá Kvenfélagi Svínavatnshrepps

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir