Kynslóðaskipti á vélum og mönnum : Rætt við Pál Sighvatsson

Páll Sighvatsson og Rúnar Hjartarson fyrir framan nýju vélina. MYND: GG
Páll Sighvatsson og Rúnar Hjartarson fyrir framan nýju vélina. MYND: GG

Það eru framundan kynslóðaskipti við stjórnvölin á Vélaverkstæði KS þegar Páll Sighvatsson lætur af störfum eftir 35 ára starf. Hann segir sjálfur að „...þetta sé eins og með vélarnar, maður úreldist.“ Það vill einmitt svo skemmtilega til að um miðjan desember á síðasta ári tóku starfsmenn Vélaverkstæðis KS í notkun nýja fræsivél.

Fyrst verðum við aðeins að fá að vita meira um þessa nýju fræsivél. Vélin leysir af hólmi fyrstu CNC vél Kaupfélagsins sem keypt var ný árið 2001, þýsk af gerðinni Deckel Maho 50M með færslusvið X / Y / Z 500mm/400mm/400mm. Hefur sú vél reynst vel í alla staði en er lítil á mælikvarða dagsins í dag.

„Nýja vélin er margfalt öflugri, einnig þýsk, og kemur frá arftaka Deckel Maho sem nú heitir DMG MORI eftir samruna tveggja stórra framleiðenda. Færslusvið hennar er X / Y / Z 1150mm/700mm /700mm,“ segir Páll.

Svona vél er töluverð fjárfesting, en nauðsynleg, til þess að halda í nýjustu þróun og tækni. Hún hefur á að skipa 60 verkfæra höldurum og velur úr þeim verkfærum sem rennismiðirnir velja að nota í hvert sinn, snúningur á spindli er allt að 15.000 sn/mín og afköst því mikil auk þess að nákvæmni er gríðarleg. „Vélin er með nýja gerð af verkfærum og er því mikil viðbót við getu okkar til að standast samkeppni um gæði og nákvæmni smíðishluta. Hún verður klárlega eitt af okkar grunntækjum á næstu 20-30 árum,“ bætir Palli við.

CNC tölvustýrður fræs styðst við forritun og getur sýnt á skjá hvernig vinnuferlið er og velur hvort hægt er að smíða stykkið eftir völdum verkfærum og uppstillingum. Eftir að sú vinna er komin er vélin fljót að smíða sjálft vinnslustykkið. Plast, ál, kopar auk stáls eru aðalefnin sem smíðað er úr, oft íhlutir í stærri vélar.

„Nú þegar smíðum við íhluti fyrir aflanema festingar í veiðarfæri og einnig nokkuð fyrir Steinullarverksmiðjuna, öxla og því um líkt. Það væri gaman að geta þjónað þeim og fleiri aðilum í nærumhverfinu meira og betur í framtíðinni. Svona tæki krefst sérþekkingar þeirra sem við þau starfa og hafa tveir starfmenn fengið þjálfunarkennslu á forrit og vél. Í ársbyrjun 2016 var keyptur rennibekkur með sama stýrikerfi, þ.e. CELOS frá Siemens 840D. Þetta er því aðeins kunnuglegt. Eins má geta þess að FNV er með hátækni kennslusetur á þessu sviði og þaðan koma útskriftarnemar með góða þekkingu á þessu sviði,“ segir Palli.

Ætlar að færa sig yfir í Vegagerðina

Hvenær byrjaði þetta allt saman? „Í maí 1989 fór ég á samning hjá Vélaverkstæði KS. Þá vorum við inni á Freyjugötu en fljótlega fluttum við að Hesteyri 2 og hef ég verið þar síðan. Stóra breytingin er 2009 er bíla og rafmagnsmenn komu hingað og Kjarninn varð til, sú sameining tókst nokkuð vel og á Kjarninn enn nokkuð inni að ég tel, “ segir Palli og heldur áfram: „En í næstu skrefum, sem lúta að stækkun húsnæðis okkar, er gott að hafa nýja menn. Mér þykir líklegt að ég sé elsti starfandi stjórnandi Vélaverkstæði KS frá upphafi, þetta hafa verið ungir menn og eiga að vera það, það liggur í hlutarins eðli.

En hvað á að fara að gera? „Þegar innan við tíu ár eru eftir á vinnumarkaði er gott að breyta til og láta gamlan draum rætast og ætla ég því að færa mig um set og hefja störf hjá Vegagerðinni. Ég hef áður starfað hjá Vegagerðinni og það var í eðli sínu skemmtilegur tími en eitthvað hafa hlutirnir breyst þar eins og víðar. Starfið felst í að stjórna Þjónustumiðstöð hér á Sauðárkróki.“

Hjörtur Elefsen kemur til með að taka við af Páli á Vélaverkstæðinu og Elvar Már Jóhannsson verður með honum. „Þessir tveir eru búnir að vera hér lengi,“ segir Palli og Hjörtur rifjar það upp að hann sé alveg að ná 25 ára starfsafmæli – sem er ótrúlegt, kornungur maðurinn.

Páll segir að lokum að ánægjulegast hafi verið að fylgjast með ungu fólki koma til starfa, menntast og þroskast, áður en það hefur síðan tekist á við krefjandi störf vítt og breitt um samfélagið. Hann vill þakka öllum samstarfsfélögum og yfirmönnum góða tíma. Viðskiptavinum Vélaverkstæðis KS þakkar hann góð samskipti og er viss um að Vélaverkstæðinu muni farnast vel á komandi árum.

Feykir óskar Páli velfarnaðar á nýjum vettvangi og verkstæðinu til hamingju með þessa viðbót í vélaflotann.  /GG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir