Lillukórinn 25 ára

Lillukórinn. Mynd: Norðanátt.is
Lillukórinn. Mynd: Norðanátt.is

Afmælis- og lokatónleikar Lillukórsins verða í Félagsheimilinu á Hvammstanga laugardaginn 29. apríl kl.14:00. Kórinn var stofnaður 1992 að frumkvæði Ingibjargar Pálsdóttur, Lillu, sem þá var tónlistarkennari á Hvammstanga og er nafnið þannig til komið. Stofnfélagar voru 16 konur en fljótt bættist í hópinn og að jafnaði hafa milli 20 og 30 konur úr Húnaþingi vestra starfað með kórnum ár hvert. Í heildina hafa 80 konur tekið þátt í starfi kórsins og enn starfa þrír stofnfélagar með honum.

Í fyrstu var starfsemi kórsins nokkuð öflug en því miður hefur endurnýjun ekki verið mikil síðustu árin. Kórinn er þó vel virkur enn, æft er að jafnaði tvisvar í viku frá vori til hausts, farið í eina til tvær tónleikaferðir og haldnir vortónleikar ár hvert.
Frá upphafi hefur Ingibjörg Pálsdóttir haldið utan um starfsemi kórsins og séð um útsetningar margra laganna á söngskránni ásamt því að annast raddæfingar. Nokkrir undirleikarar hafa verið með kórnum, lengst af Guðjón Pálsson sem sá jafnframt um kórstjórn en síðustu fimm árin hefur Sigurður Helgi Oddson annast stjórn og undirleik.

Kórinn hefur gefið út tvo geisladiska.  Ég hylli þig Húnaþing sem kom út árið 1999 og Sendu mér sólskin árið 2004. Á þeim seinni eru öll lögin og einnig ljóðin eftir Pétur Aðalsteinsson frá Stóru Borg.

Á tónleikunum á laugardaginn fær kórinn til sín góða gesti sem eru Sprettskór og Grundartangakórinn sem Atli Guðlaugsson stjórnar. Undirleikari er Sigurður Helgi Oddsson. 

Allir eru hjartanlega velkomnir á tónleikana. Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á veglegar veitingar að hætti kórsins. 

Sérstakir styrktaraðilar tónleikanna eru Húnaprent, Kaupfélag Vestur - Húnvetninga og Landsbankinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir