Ljóðmæli Jóns á Vatnsleysu gefin út

Árdís Maggý Björnsdóttir og Jón Friðriksson. Þessi mynd sem tekin var á Landsmóti hestamanna á Hólum 1966 birtist í Morgunblaðinu á sínum tíma.
Árdís Maggý Björnsdóttir og Jón Friðriksson. Þessi mynd sem tekin var á Landsmóti hestamanna á Hólum 1966 birtist í Morgunblaðinu á sínum tíma.

Nýlega kom út bókin Ég lít til baka sem hefur að geyma ljóðmæli Jóns K. Friðrikssonar,  hestamanns og hrossaræktanda á Vatnsleysu í Skagafirði. Jón var fæddur árið 1941 en lést fyrir aldur fram árið 2004, aðeins 63 ára að aldri. Bókin skiptist í ljóð, tækifærisvísur og skemmtilegar frásagnir vina Jóns af honum. Einnig prýða bókina myndverk eftir Eðvald Friðriksson, bróður Jóns, en Jón samdi ljóð við myndirnar.

Bókin er meira en bara ljóðabók því í henni eru, auk ljóða og tækifærisvísna, frásagnir vina og vandamanna og svo myndir eftir bróður Jóns, Eðvald Friðriksson en Jón samdi ljóð við myndirnar. Jón K. Friðriksson var eftirtektarverður maður, svipmikill með glettnisbros í augum, hann barst ekki á. En ljóðin hans og minningin munu lifa. Aftan á bókinni er að finna þessa vísu Jóns:

Líður að vori, vindar kalla,

Vefja örmum höfuðból.

Kvöldsins geislar frjálsir falla

fram af glæstum Tindastól.

Árdís var með bókina til sölu á nýlega afstöðnu Landsmóti á Hólum í Hjaltadal. „Viðtökurnar voru afar góðar og bókinni er afar vel tekið,“ segir Árdís, sem selur hana á kostnaðarverði, 3500 krónur. Um er að ræða fallega innbundna bók með miklu myndefni. Hún fæst hjá Árdísi (Dísu) í síma 898 6956 og 453 5956 og hjá Bjarna Maronssyni. „Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þeim sem komu að gerð bókarinnar og öllu því ágæta fólki víðs vegar um landið sem keypti Ljóðmæli Jóns K. Friðrikssonar, Ég lít til baka,“ segir Árdís m.a. í spjalli í nýjasta tölublaði Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir