Níu stigu á svið á Open Mic kvöldi Leikfélags Blönduóss

Kátt á hjalla hjá Leikfélagi Blönduóss. MYND AF FACEBOOK
Kátt á hjalla hjá Leikfélagi Blönduóss. MYND AF FACEBOOK

Að kvöldi sumardagsins fyrsta stóð Leikfélag Blönduóss fyrir viðburði í fallega leikhúsinu sínu í Félagsheimilinu á Blönduósi. Þar var um að ræða svokallað Open Mic og var öllum velkomið að taka þátt; flytja ljóð, segja skemmtilega sögu, syngja lag, fara með einræðu eða upplestur fyrir framan áhorfendur.

Feykir spurði Eva Guðbjartsdóttur, forynju LB, aðeins út í viðburðinn.

Hvað er Open Mic? „Open Mic kvöldið okkar er partur af leikrænni menningarröð sem Leikfélag Blönduóss hefur verið að setja á laggirnar á þessu ári þar sem við fengum styrk frá hinum frábæra Uppbyggingarsjóð Norðurlands vestra. Við kölluðum eftir áhugasömu fólki til að koma og flytja erindi, sögu, ljóð, syngja lag eða hvað sem fólki datt í hug.

Hvernig var þátttakan og hvernig tókst til? „Á þessu fyrsta Open Mic kvöldi stigu níu einstaklingar á svið sem bæði komu með fyrirfram ákveðin atriði og eins bættist í þegar leið á kvöldið. Það mættu ekki margir í sal fyrir utan þátttakendur en vonandi verða þessi kvöld reglulega hjá leikfélaginu og við getum eflt bæði fleiri til að taka þátt og að lokka fleiri áhorfendur í okkar dýrðlega leikhús.

Hvað er framundan? „Leikfélagið er með ýmislegt í pípunum, fleiri svona kvöld, gesta brúðuleikhús, hæfileikakeppni og 80 ára afmæli félagsins svo eitthvað sé nefnt. Svo fylgist með, takið þátt og eflið menningu á Norðurlandi!“ segir Eva.

Hægt er að kíkja á fleiri myndir og myndbönd (mest í ummælum við færsluna) frá viðburðinum á Facebook-síðu Leikfélags Blönduóss >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir