Sóldísir með tónleika á konudaginn

Kvennakórinn Sóldís. Mynd af fésbókarsíðu kórsins.
Kvennakórinn Sóldís. Mynd af fésbókarsíðu kórsins.

Nú fer mildum þorra að ljúka og góan tekur við en fyrsti dagur þess mánaðar er hinn ljúfi konudagur sem er nk. sunnudag. Þann dag hafa konurnar í kvennakórnum Sóldís í Skagafirði tileinkað söng og munu þess vegna halda konudagstónleika í Menningarhúsinu Miðgarði. Feykir leit við á æfingu og forvitnaðist um tónleikana og kórinn.

„Það er árvisst að kvennakórinn haldi konudaginn hátíðlegan með söng og veislu. Tónleikarnir í ár verða fjölbreyttir, skemmtilegir, fullir af rómantík jafnt og spennu. Lögin spanna vítt og breitt, allt frá klassískum óperustykkjum og þjóðlögum til dægurlaga. Nú, svo lofum við ljúffengri kaffiveislu eftir tónleikana. Tónleikarnir eru að venju í Miðgarði og hefjast kl. 15:00,“ segja þær Drífa Árnadóttir, Íris Olga Lúðvíksdóttir og Sigurlaug Maronsdóttir sem tóku að sér að svara fyrir kórinn en viðtal við þær stöllur er í nýjasta Feyki sem kom út í gær. Þær segja að smekkur kórstjórans með dálítilli afskiptasemi stjórnar og dassi af uppástungum undirleikara ráði lagavali kórsins en hann telur 53 konur, úrval kvennablómans í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu.

Kórinn heldur fleiri tónleika en þann 21. febrúar munu Sóldísir stíga á stokk í Blönduóskirkju klukkan 20:30. Einnig er stefnan tekin á Hofsós í byrjun apríl og svo tekur kórinn þátt í Sæluviku. Í byrjun júní er áætlað að fara í söngferð í Reykholt og Hvammstanga.

Meðfylgjandi myndband var tekið upp á æfingu í síðustu viku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir