Stuð og stemning framundan á Lummudögum

Þó eitthvað dropaði úr lofti á Lummudögum í fyrra var líf og fjör í gamla bænum á Sauðárkróki. Mynd af Facebooksíðu Lummudaga.
Þó eitthvað dropaði úr lofti á Lummudögum í fyrra var líf og fjör í gamla bænum á Sauðárkróki. Mynd af Facebooksíðu Lummudaga.

Á Sauðárkróki mun lummuilmur væntanlega svífa yfir götum um helgina en þá verða Lummudagar haldnir í ellefta skipti. Feykir hafði samband við Steinunni Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Lummudaga og bað hana að segja lesendum eilítið frá Lummudögum.

Lummudagar eru bæjar og héraðshátíð okkar Skagfirðinga, hún skapar samstöðu meðal íbúa og er markmiðið að íbúar, brottfluttir og aðrir gestir geri sér glaðan dag og skemmti sér og öðrum. Hverfi og byggðarlög fá úthlutað litaþema og eru hvött til þess að skreyta hús, götur og heimreiðar í þeim lit og er tilgangurinn að hvetja fólk til þess að gera sitt nærumhverfi snyrtilegt og skemmtilegt. Lagt er upp með að götugrill séu haldin á föstudagskvöldinu. Laugardagurinn verður aðal viðburðadagurinn og fer dagskráin að mestu fram í gamla bænum á Sauðárkróki.

Hátíðin í ár verður frábær og margt um að vera, á föstudeginum er nýjung þar sem fulltrúar helstu íþróttagreina í Skagafirði bjóða krökkum á aldrinum 5 – 12 ára að koma í heimsókn á milli klukkan 16 og 18 og prufa. Meðal annars verður meistaraflokkur körfuboltadeildarinnar á vellinum við Árskóla tilbúinn  að spila með krökkunum, þjálfarar í fótboltanum ætla að vera á sparkvellinum með bolta og fróðleik, frjálsíþróttadeild Tindastóls býður upp á íþróttafjör á Sauðárkróksvelli við Manahúsið með Arnari og Ísaki Óla og Crossfit býður í heimsókn á milli klukkan 17 og 18. Golfklúbburinn lætur ekki sitt eftir liggja og býður krökkum að grípa í kylfur og prufa uppi á golfvelli, júdó deildin verður í íþróttahúsinu, klár í slaginn og fulltrúar frá Hestamannafélaginu Skagfirðingi bjóða í heimsókn í Reiðhöllina þar sem hægt er að kynnast þeirra starfi. Þannig að núna er um að gera fyrir alla krakka að taka rúntinn og prufa þar sem þetta er frábært tækifæri til þess að kynnast nýjum íþróttagreinum.

Dagskráin á laugardeginum hefur verið af ýmsum toga en hún verður milli klukkan 13 og 16. Má þar nefna götumarkað, tónlistaratriði og leiktæki fyrir börnin. Slökkviliðið mætir í bæinn og ætlar að leyfa gestum að skoða sinn búnað, veltibíllinn mætir á svæðið, þær stöllur Íris og Ágústa verða í bænum með nýja tímaritið sitt HVAÐ https://www.facebook.com/hvadtimarit/.

Sólon myndlistarfélag verður með opna vinnustofu og velunnarar Safnaðarheimilisins á Sauðárkróki verða með basar í Safnaðarheimilinu. Einnig hafa fyrirtæki í bænum opnað sínar dyr og oft boðið upp á lummur með kaffinu. Ýmsir viðburðir hafa verið haldnir á þessum degi og því margt fólk að gera sér glaðan dag. Þennan sama dag verður einnig afmælishátíð Verslunar Haraldar Júlíussonar og því verður mikið um að vera og almennt stuð á hverju horni.

Svo verður stuð og stemning föstudags- og laugardagskvöld á KK restaurant og Grand-Inn bar.

Ýtarlega dagskrá er að finna á helstu þjónustustöðum á Sauðárkróki, á Facebooksíðu Lummudaga https://www.facebook.com/lummudagar/ og í auglýsingu í Sjónhorninu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir