Uppselt á Gísla á Uppsölum

Elfar Logi Hannesson í gervi Gísla á Uppsölum. Mynd: Kómedíuleikhúsið.
Elfar Logi Hannesson í gervi Gísla á Uppsölum. Mynd: Kómedíuleikhúsið.

Kómedíuleikhúsið á Ísafirði hefur að undanförnu farið um landið með einleikinn Gísli á Uppsölum, sem er áhrifamikil sýning um einstakan mann, Gísla Oktavíus Gíslason. Einn stærsti viðburður íslenskrar sjónvarpssögu var Stikluþáttur Ómars Ragnarssonar um þennan vestfirska einbúa.

Enn er Gísli landanum kær og hugleikinn og nú hefur leikarinn Elfar Logi Hannesson brugðið sér í gervi Gísla. Að sögn Elfars Loga er búið að sýna sjö sýningar og þar af hafa tvær verið uppseldar og viðtökur verið framar björtustu vonum. Uppselt er á sýninguna á Hvammstanga á föstudaginn og kominn biðlisti.

„Einstök stemming hefur myndast á sýningunum enda er Gísli sannarlega þjóðinni hugleikinn enn í dag. Þetta er eiginlega þriggja vasaklúta stykki-átakanleg saga sem snertir við okkur enn í dag,“ segir Elfar Logi, aðspurður um viðtökur við sýningunni. Hingað til hefur einkum verið sýnt á Vestfjörðum en þó voru tvær sýningar á Akureyri um daginn og seldist upp á aðra þeirra. Leikferðin heldur áfram og er miðasala í gangi víða um land.

Handritið er skrifað af þeim Elfari Loga og Þresti Leó Gunnarsyni en Þröstur Leó er jafnframt leikstjóri. Dramatúrg er í höndum Símonar Birgissonar, tónlistina samdi Svavar Knútur og um lýsingu sér Magnús Arnar Sigurðsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir