Doritosostaogsalsasósukjúklingarétturinnmikli

Matgæðingar vikunnar í 5. tölublaði Feykis árið 2016 voru þau Laufey Björg Kristjánsdóttir og Kristján Rafn Rúdólfsson á Skagaströnd. Þau buðu lesendum upp á Naan brauð með Sweet Chili sósu, „Doritosostaogsalsasósukjúklingaréttinnmikla“ og jarðaberjaís í eftirrétt. 

Forréttur
Naan brauð með Sweet Chilli sósu 

Aðferð:
Auðvitað er hægt að gera heimabakað Naanbrauð en ég hef alltaf látið mér það duga að kaupa það tilbúið úti í búð, enda er það alveg ógeðslega gott.            Byrjið á því að setja Naan brauðið á skurðabretti og skera það í fallega, mjóa (ekki of mjóa) strimla, setjið svo strimlana á ofnplötu og skvettið örlítið af vatni á þá áður en þið setjið þá inn í ofn, þá verða þeir pínu stökkir. Ofninn má vera á svona 200°C (einnig höfum við prufað að setja strimlana í heilsugrillið okkar og það kom ágætlega út).
Þegar brauðið hefur verið í, tja ég veit ekki, 10 mín. eða svo í ofninum þá er gott að opna ofninn og færa brauðið aðeins til á plötunni og skvetta nokkrum dropum í viðbót af vatni yfir, því að, jú, „crunchy“ er jákvætt lýsingarorð.
Þegar það er kominn smá litur á brauðið og þú getur ekki beðið lengur eftir að setja það upp í þig þá hreinlega tekur þú strimlana út úr ofninum, raðar þeim á fallegan platta eða disk, svo velur þú litla krúttlega skál til þess að troðfylla af Sweet Chilli sósu upp að brún, og svo dýfir maður í og nýtur bragðsins! Ég hef ekki ennþá hitt neina manneskju sem finnst þetta ekki gott. 

Aðalréttur
„Doritosostaogsalsasósukjúklingarétturinnmikli“
 - er hann kallaður á mínu heimili

Kjúklingabringur (misjafnt magn sem fer eftir fólksfjölda, döh)
ostasósa (bara einhver sem er gul á litinn, gulur er góður litur)
Doritos (verður að vera appelsínugulur Doritos, (þetta er mjög mikilvægt, af ofangreindum ástæðum)
Chunky Salsa sósu (mátt velja á milli medium og hot, en milda sósan er bara fyrir plebba)
Mexíkóost (engar fleiri athugasemdir, nema þessi)
ost (bara svona venjulegan brauðost). 

Aðferð:
Þessi er líka mjög einfaldur. Settu kjúllann á bretti, skerðu hann í litla bita, hentu bitunum í eldfast mót og hentu mótinu inn í ofn við 200°C í 20 mín. Á meðan þú bíður eftir kjúllanum skerðu Mexíkóostinn í litla bita og hendir þeim í lítinn pott og hellir smá mjólk með í pottinn eða jafnvel rjóma (ef þú getur munað eftir að kaupa hann, sem ég geri ekki). Svo hrærir þú bara reglulega í pottinum svo ostabitarnir brenni ekki við botninn og þetta verður djúsí mexíkóaostasósa á no-time.
Þegar kjúlli er búinn að vera í 20 mín. í ofninum þá má taka eldfasta mótið úr ofninum (ég mæli með að nota ofnhanska) og hella vökvanum úr botninum í vaskinn (ef ég get það þá getur þú það). Næst máttu hella djúsí mexíkóostasósunni yfir alla kjúllabitana og þarnæst máttu setja þessa venjulegu gulu ostasósu úr búðinni yfir það. Svo tekur þú u.þ.b helminginn af Doritos flögunum og mylur þær léttilega þannig að þær verði svona eins og míní útgáfur af sjálfum sér og dreifir þeim yfir kjúllann og ostasósurnar tvær.
Næst hendir þú bara smá salsasósu yfir flögurnar (og kjúllann og hinar sósurnar tvær, aldrei of mikið af sósu) og að lokum tekur þú afganginn af Doritosinu og mölvar það og setur ofan á þetta allt saman og raðar svo ostasneiðum fallega á yfirborðið, þá verða efri flögurnar svona „crunchy“ (þið munið að „crunchy“ er jákvætt lýsingarorð).
Og þá máttu henda þessu ljúfmeti inn í ofn í rúmar 20 mín. eða þar til að osturinn er vel bráðnaður.
            Munið endilega að deila svo með ykkur matnum ef þið eruð með gesti en það er fremur erfitt með þennan rétt. 

Eftirréttur
Jarðaberjaís 

Ísmót
15-20 jarðaber
1 vel þroskaður banani
250 g óhrært skyr eða grísk jógúrt
yndarenna eða léttmjólk eftir smekk 

Aðferð: Ég verð að viðurkenna það upp á mig að ég hef ekki prufað að búa þetta til en ég hef smakkað hann og þá fannst mér hann ljúfmeti! Allt sett saman í blandara og hrært þar til „smoothie-inn“ verður silkimjúkur. Við viljum hafa hann þynnri heldur en þykkari því við ætlum að frysta hann í ísmótum svo ekki spara mjólkina. Þegar þú ert ánægð með blönduna skaltu hella henni í ísmótin og setja í frysti í 4-6 tíma.
Hægt er að vera frumlegur með ísmót, hvort sem það eru svona plast mót úr búð eða endurnýttar ísblóma dollur eða hvað sem ykkur dettur í hug.

 

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir