Einfalt og gott í saumaklúbbinn eða afmælið

Matgæðingarnir Sigrún Heiða og Eðvarð.
Matgæðingarnir Sigrún Heiða og Eðvarð.

Sigrún Heiða Seastrand og Eðvarð Þór Gíslason á Sauðárkróki sáu um matarþáttinn í fimmta tölublaði ársins 2018. „Matgæðingar erum við miklir og erum mikið að gera alls konar tilraunir í eldhúsinu og fáum við hiklaust mat frá krökkunum hvort þetta eigi að vera aftur í matinn eða ekki,“ sögðu Sigrún og Eðvarð sem gáfu lesendum þrjár spennandi uppskriftir sem þau sögðu að séu einfaldar og góðar í saumaklúbbinn, afmælið eða hvað sem er.

RÉTTUR 1
Vefjur með kjúklingi og ostablöndu

2 bollar smátt saxaður soðinn kjúklingur
250 g rjómaostur
½ bolli Buffalo wings sósa
¼ bolli rifinn gráðaostur
1 bolli rifinn cheddarostur
2 msk sýrður rjómi
3 vorlaukar, saxaðir
4 tortillur

Aðferð: Öllu blandað saman í skál og hrært vel, smurt á tortillurnar og rúllað upp. Geymt aðeins, jafnvel yfir nótt, og látið jafna sig. Skorið í sneiðar og þær eru tilbúnar í partýið.

RÉTTUR 2
Beikonpylsur

1 pakki smápylsur, t.d. frá SS
sama magn í þyngd af beikoni
1 bolli púðursykur

Aðferð: Takið beikonið og klippið hverja sneið í tvennt. Vefjið hálfri sneið utan um hverja pylsu og festið með tannstöngli. Raðið þessu á plötu og þegar allt er tilbúið er púðursykrinum jafnað yfir og látið standa í u.þ.b. hálftíma, gott að sykurinn bráðni örlítið, má þess vegna vera aðeins lengur. Þá er þetta sett inn í ofn á 180° í u.þ.b. 15 mínútur.

RÉTTUR 3
Eplakaka

1 bolli sykur – má vera púðursykur
1 bolli hveiti
4 egg
2 stór epli eða 4-6 lítil
kanilsykur

Aðferð: Þetta er þeytt deig, þ.e. egg og sykur eru þeytt saman og þurrefnum bætt varlega út í. Eplin eru skorin í báta og raðað ofan í deigið, kanil stráð yfir. Bakað við 200°C í 30-40 mínútur, fer eftir stærð formsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir