Matgæðingur í tbl 12 - Eldbökuð pizza og ís með Mars-sósu

Magnús Barðdal og Anna Hlín ásamt börnunum. Frá vinstri: Baltasar Jón, Patrekur Elí,
Pálína Petra og Benedikt Óli og síðan hundurinn Neró. MYND AÐSEND
Magnús Barðdal og Anna Hlín ásamt börnunum. Frá vinstri: Baltasar Jón, Patrekur Elí, Pálína Petra og Benedikt Óli og síðan hundurinn Neró. MYND AÐSEND

Matgæðingur í tbl 12 í ár er Magnús Barðdal en hann er fæddur og uppalinn á Króknum. Magnús er giftur Önnu Hlín Jónsdóttur og eru þau að sjálfsögðu búsett á Sauðárkróki og eiga saman fjögur börn. Magnús vinnur í dag hjá SSNV sem verkefnisstjóri fjárfestinga en saman eiga þau hjónin gistiheimilið Hlín Guesthouse sem staðsett er á Steinsstöðum í Lýdó.

„Við fengum þessa skemmtilegu áskorun frá félögum okkar Ragnari og Erlu. Takk fyrir að leyfa okkur að taka þátt. Fyrir nokkrum árum áskotnaðist okkur Ooni pizzaofn sem hreinlega gerir bestu pizzur sem hægt er að fá. Þegar við viljum brjóta upp hversdagsleikann eða bjóðum fólki í mat er tilvalið að henda í nokkrar eldbakaðar pizzur á pallinum. Klikkar aldrei! Þar sem við heyrum að sífellt fleiri eru komnir með pizzaofna langar okkur að deila uppskrift af deigi sem stendur alltaf fyrir sínu,“ segir Magnús. 

AÐALRÉTTUR
Pizzadeig

    1 kg brauðhveiti
    650 ml vatn
    20 g salt
    ¼ tsk. instant ger eða 1 tsk. ferskt ger
    góð skvetta af góðri olíu 

Aðferð: Það er mjög mikilvægt að fylgja uppskriftinni í einu og öllu. Blanda saman hveiti og vatni í skál og hræra saman. Breiða klút yfir og hvíla í 15-30 mínútur. Mjög mikilvægt skref. Bæta við salti, geri og olíu. Hnoða þangað til deigið fer úr því að festast við allt þangað til deigið fer að festast mest við sjálft sig. Athuga að deigið á að vera blautt og nokkuð erfitt viðureignar. Setja deigið í skálina, breiða vandlega yfir með plastpoka og inn í ísskáp yfir nótt. Getur haldist í 2-3 daga inn í ísskáp. Taka deigið úr skálinni og hnoða. Úr þessu nást 6-7 stk af 220-250 gramma kúlum. Þær eru mældar og settar á svarta bökunarplötu með miklu plasti yfir og látið hefast yfir nótt í ísskáp. Það er svo hugmyndaflugið sem ræður för með álegg en okkur finnst magn ekki endilega sama og gæði. 

 

 

EFTIRRÉTTUR
Ís með Mars-sósu

Til að toppa frábæra kvöldstund verður að enda á ljúffengum eftirrétti. Í takti við aðalréttinn er það einfalt og gott. Þ.e. ís að eigin vali með Mars-sósu, fljótleg heit súkkulaðisósa ofan á ísinn.

Mars-sósa:
    2 Mars-stangir
    2 og 1/2 dl rjómi
    100 g suðusúkkulaði

Aðferð: Bræðið varlega saman í potti eða vatnsbaði. Berið fram með vanilluís og ferskum ávöxtum.

Verði ykkur að góðu!

Magnús skorar á Baldur Sigurðsson og Helgu Skúladóttur að taka við keflinu og vera matgæðingar í Feyki. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir