Feykir mælir með eggjaköku og eftirrétti fátæka mannsins

eggjakakan - mynd frá ljufmeti.is
eggjakakan - mynd frá ljufmeti.is

Það eru alveg að koma mánaðarmót og þá fer maður oft að skoða hvað situr eftir inn í ísskáp sem væri hægt að nota í eitthvað ljúffengt og gott. Feykir mælir því með, að þessu sinni, ofnbakaðri eggjaköku með grænmeti og svo eftirrétti fátæka mannsins sem er brauðbúðingur með vanillusósu.

Ofnbökuð eggjakaka með grænmeti

Uppskrift tekin af ljufmeti.is sem er í raun engin uppskrift því þetta er bara spurning um að taka það grænmeti sem til er í ísskápnum og nota það.

    sætar kartöflur

    papríka

    brokkólí

    sveppir

    rauðlaukur

    ítölsk hvítlausblanda frá Pottagöldrum

    4-5 egg

    fetaostur

    smjör

Aðferð: Grænmetið skorið í hæfilega bita sem settir eru á pönnu og kryddað eftir smekk og steikt upp úr smá smjöri. Grænmetið er síðan sett í eldfast mót, 4-5 egg hrært saman, fetaostinum bætt við og svo hellt yfir grænmetið. Þetta er síðan sett inn í ofn á 180°C í um 20-25 mín. eða þar til eggjahræran er orðin passlega elduð. Þetta er tilvalið nesti til að taka með sér í vinnuna og þá er eggjakakan skorin í hæfilegar skammtastærðir sem eru svo frystar.

Eftirréttur fátæka mannsins (brauðbúðingur)

Þessi uppskrift er tekin af paz.is og ef þið viljið gera réttinn þannig að hann sé alveg mjólkurlaus þá er best að notast við hvítt formbrauð í stað Croissant.

    10 smjörhorn eða Croissant (hún keypti frosin óbökuð og bakaði þau eftir leiðbeiningum í ofni) eða 5 bolla af hvítu formbrauði eða öðru brauði sem ykkur       finnst gott

    1 askja af Oatly sýrðum rjóma

    4 egg

    1/2 bolli Rapadura hrásykur frá Rapunzel (gerir rosa gott bragð)

    1,5 tsk. vanilluextract

    3/4 bolli hvítir og dökkir súkkulaðidropar (megið líka sleppa hvítu)

    hyrna af vanillussósu frá Oatly

 

Aðferð: Ef þið notið frosin Croissant byrjið þá á að baka þau í ofni eftir leiðbeiningum á pakka. Byrjið svo á að gera sósuna með því að hræra saman eggjum, sýrða rjómanum, vanilluextractinu og sykrinum. Skerið svo Croissant hornin eða brauðið í teninga og látið út í sósuna. Látið standa í eins og 15 mínútur svo að brauðið drekki í sig vökvann. Bætið svo súkkulaðidropunum varlega saman við og hrærið öllu varlega en vel saman. Hún setti búðingin í 4 souffle form en það er líka hægt að setja hann í stórt kringlótt eldfast mót. Bakið í ofni á 180-190°C með blæstri í 30-35 mínútur eða þar til allt er orðið gyllinbrúnt að ofan. Berið svo fram með vanillussósunni frá Oatly en henni er stranglega bannað að sleppa enda setur hún punktinn algjörlega yfir i-ið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir