Feyknagott á grillið

Mynd: Eldhúsperlur.com.
Mynd: Eldhúsperlur.com.

Uppskriftaþátturinn sem hér fer á eftir birtist í 28. tölublaði Feykis árið 2015.

Það jafnast ekkert á við góðan grillmat til að gæða sér á á fallegu sumarkvöldi og grillaðar lambakótilettur klikka aldrei. Feykir býður því upp á uppskrift að óviðjafnanlegum grillmat sem óhætt er að mæla með. Marineringin er mjög góð og smellpassar við lambakjöt, án þess þó að vera of yfirgnæfandi. Mörgum finnst kartöflur ómissandi og við erum sammála, og látum uppskrift að dásamlegum kartöflum fylgja með. Máltíðin er svo fullkomnuð með grísku salati og graslaukssósu. 

Marinering á lambakjöt 

 • 8 lambakótilettur
 • 2 hvítlauksrif, smátt söxuð
 • 1 msk saxað rósmarín
 • 2 msk sítrónusafi
 • 1 tsk salt og 1 tsk pipar
 • 1 dl ólífuolía
 • 1 dl rauðvín

Öllu blandað saman og hellt yfir lambakjötið, ég setti þetta í rennilása plastpoka og lét standa við stofuhita í  1½ klst. Má líka gera daginn áður og láta marinerast í ísskáp. Kjötið er svo grillað á útigrilli í um það bil 5-6 mínútur á hvorri hlið við frekar háan hita. Mjög gott er að strá svo saxaðri steinselju yfir kjötið þegar það er tilbúið, en það er ekki nauðsynlegt.

Litlar kartöflur með brúnuðu smjöri

 • Um það bil 10-12 frekar litlar kartöflur, skolaðar og þerraðar (reiknað með þremur kartöflum á mann)

 • 75 g smjör
 • salt, pipar og rósmarín.

Raufar skornar í kartöflurnar, smjörið brúnað og hellt yfir, Saltað og piprað og nokkrar rósmaríngreinar settar með. Bakað í ofni við 180°C í 60 mínútur.

Grískt salat

 • 1 agúrka, kjarnhreinsuð og skorin í sneiðar
 • 2 öskjur kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
 • 1/2 lítil krukka ólívur
 • 1/2 krukka grillaðir ætiþistlar (Ítalía ætiþistlar, fást í Bónus og Hagkaup)
 • 1/2 krukka salat feti, vatnið sigtað frá
 • 1 msk hvítvínsedik
 • 2 msk ólífuolía
 • salt, pipar og þurrkað oregano

Öllu blandað saman í skál, ólífuolíu og ediki skvett yfir og smakkað til með salt, pipar og óreganó. 

Graslaukssósa

 • 2 dl ab mjólk
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 1/2 búnt graslaukur, smátt saxaður (þessi sem fæst í plastbökkunum)
 • 1/2 tsk hunang
 • 1 tsk hvítvínsedik
 • salt og pipar

Öllu blandað saman og smakkað til með salti og pipar.

Þessar uppskriftir eru fengnar af: http://eldhusperlur.com/2013/01/13/grilladar-marineradar-lambakotilettur-hasselback-kartoflur-med-brunudu-smjori-griskt-salat-og-graslaukssosa/

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir