Fimm laga lostæti og girnileg ávaxtakaka í eftirrétt

Stella og Jón Björgvin. Mynd úr einkasafni.
Stella og Jón Björgvin. Mynd úr einkasafni.

Guðríður M. Stefánsdóttir eða Stella Stefáns, var matgæðingur vikunnar í 29. tbl Feykis 2016. Stella kemur frá Glæsibæ í Staðahreppi en býr ásamt eigimanni sínum, Jóni Björgvini Sigvaldasyni, á Sauðárkróki. Býður hún lesendum upp á gómsætan fiskrétt, gróft snittubrauð með sjávarsalti sem meðlæti og girnilega ávaxtaköku sem eftirrétt.

Fimm laga lostæti fyrir 4

1½ dl hrísgrjón
400 g beinlaus fiskur, þorskur, ýsa, karfi eða smálúða
100 g blaðlaukur, hrár
100 g gulrætur, soðnar
200 g rækjur
½ tsk salt
pipar eftir smekk
2 egg
150 g majónsósa
150 g brauðostur, rifinn

Aðferð:
Sjóðið hrísgrjónin í söltuðu vatni og setjið þau í botninn á eldföstu móti, smurðu að innan með smjöri. Setjið blaðlaukinn og gulræturnar í sneiðum ofan á. Raðið nú fiskinum og rækjunum ofan á. Kryddið með salti og pipar á milli laga.
Þeytið saman eggjarauðu og majónsósu, blandið ostinum saman við og að lokum stífþeyttum eggjahvítunum. Hellið þessu yfir réttinn og setjið hann í ofninn í 20 mínútur við 180°C.
Berið fram með grófu brauði og smjöri.

Gróft snittubrauð með sjávarsalti

50 g ger
½ l volgt vatn
2 msk matarolía
1 msk salt
2 msk hunang
300 g gróft rúgmjöl
5-600 g hveiti

Aðferð:
Leysið gerið upp í litlum hluta af vatninu (það á að vera 37°C heitt). Bætið síðan afganginum af vatninu saman við ásamt olíu, salti, hunangi og rúgmjöli.

  1. Bætið mestöllu hveitinu saman við og hnoðið. Látið hefast á volgum stað í 30-45 mínútur. Hnoðið deigið aftur og bætið meira hveiti saman við ef þarf.
  2. Skiptið deiginu í þrennt og mótið mjó snittubrauð í lengd bökunarplötunnar. Ristið skurði á ská í brauðið og látið hefast á plötunni í 30 mínútur.
  3. Penslið brauðin með volgu vatni og 2 dropum af olíu. Stráið grófu salti yfir, 1 tsk á hvert brauð.
  4. Bakið í 220°C heitum ofni í 12 mínútur. Slökkvið síðan á ofninum en látið brauðin vera áfram inni í 10 mínútur. Látið kólna á bökunarrist. 

Ávaxtakaka í sumarskapi

125 g smjör
200 g sykur
2 egg
125 g hveiti
½ tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
2 epli, græn
1 tsk kanill
3 msk sykur
1 lítil dós apríkósur
100 g jarðarber, fersk
rjómi

Aðferð:
Blandið hálfbræddu smjöri, eggjum, sykri, hveiti og lyftidufti saman í skál ásamt vanilludropum og hrærið í 2 mínútur. Klæðið skúffu, 30x40 sm, að innan með bökunarpappír og smyrjið deiginu jafnt yfir skúffuna (hægt er að búa til bréfskúffu á plötu eða nota eldfast mót). Flysjið epli, skerið í þykka báta og veltið upp úr blöndu af kanil og sykri. Skerið jarðarber í sundur og dreifið ávöxtunum yfir deigið. Bakið við 180-200°C í 15-20 mínútur.

Berið kökuna fram volga með léttþeyttum rjóma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir