Fiskisúpa og mulningspæja

Þormóður Ingi, Sóldís, Inga Dís, Þormóður Ari og Herdís í Vigelandsparken í Ósló
páskana 2021. AÐSEND MYND
Þormóður Ingi, Sóldís, Inga Dís, Þormóður Ari og Herdís í Vigelandsparken í Ósló páskana 2021. AÐSEND MYND

Matgæðingur í tbl 15, 2021, var Herdís Pálmadóttir en hún býr í Noregi ásamt fjölskyldu sinni, þeim Þormóði Inga, Sóldísi, Ingu Dís og Þormóði Ara. Sökum aðstæðna í þjóðfélaginu í dag hafa þau ekki komið til Íslands í þrjú heil ár og hlakka þau mikið til að geta komið aftur á Krókinn þar sem krakkarnir fá að hlusta á Rás 1 með morgunmatnum og fara í heita pottinn með afa sem talar alltaf svo hátt. 

„Það verður að segjast að eldamennskan a heimilinu dagsdaglega er yfirleitt eitthvað fljótlegt og ekki endilega eins og klippt út úr kokkabók. Húsbóndanum finnst stundum aðeins of mikill fókus á létt salat. Þá er gott ad brydda upp a nýjungum með þorskhnökkum úr frystinum, sem mamma og pabbi koma stundum með í handfarangri frá Íslandi,“ segir Herdís. Þessi fiskisúpa er einföld og svakalega góð. Ég er vön að gera stóra uppskrift, gjarnan ef að einhver kemur í mat og á þá smá afgang handa okkur, ef ég er heppin. Oft undirbý ég súpuna daginn áður, þá á bara eftir að hita hana upp og skella fisknum í hana.

AÐALRÉTTUR
Fiskisúpa -  uppskrift f. 8 manns
    u.þ.b. 1600 g fiskur, ég nota oftast þorskhnakka og lax, skorið í hæfilega stóra bita.
    olía til steikingar
    2 rauðlaukar, saxaður smátt
    2 rauð chili, söxuð smátt
    1 gul paprika, skorin í bita
    1 rauð paprika, skorin í bita
    1 l fiskisoð
    4 dl kókosmjólk/rjómi
    400 g rjómaostur
    1 1/2 dl tómatpúrra
    ferskur kóríander (góð handfylli eða tvær), blöðin söxuð
    5 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð
    1 tsk. chili-krydd
    1 tsk. engifer
    1/2 tsk. cumin
    salt og pipar

Aðferð: Laukur, chili og paprika steikt í stórum potti þar til mjúkt. Rjómaosti, fiskikrafti, rjóma, tómatpúrru og kryddum bætt út í. Því næst er kóríander og hvítlauk bætt út í súpuna og suðan látin koma upp. Hrært vel og súpan látin malla í u.þ.b. fimm mínútur. Fisknum bætt út í og súpan látin malla í nokkrar mínútur í viðbót þar til fiskurinn er soðinn í gegn. Súpan er smökkuð til með salti og pipar og er borin fram með góðu brauði.

EFTIRRÉTTUR
Smuldrepai / Mulningspæja

Einfaldasta uppskrift af góðgæti sem hittir alltaf í mark. Hér er hægt að nota það sem til er, rabarbara, epli, perur, ferskjur, plómur, frosin ber o.s.frv. Ég sker oft ávexti sem eru á síðasta snúning í bita og frysti. Þannig tekur enn styttri tíma að skella í þessa hnallþóru.

    100 g hveiti (hvað tegund sem er, hvítt, spelt, mjúkt, gróft)
    60 g hafragrjón
    50 g sykur (púðursykur passar mjög vel, notaðu það sem þú átt til)
    75-100 g smjör (skorið í bita, við stofuhita)

Aðferð: Allt sett í skál, ég er vön að fá börnin mín til að sjá um að blanda saman með höndunum, þar til smjörið er komið vel inn í blönduna. Á meðan krakkarnir blanda saman (þ.e.a.s. þegar þau eru búin að ná samkomulagi um hver fái að blanda í þetta sinn) þá græja ég afganginn.

    500 g -1 kg af ávöxtum að eigin vali
    kanill eftir ósk, ég nota góða gusu
    sítrónusafi, smá skvetta
    nokkrar döðlur eða 1/2 dl sykur

Aðferð: Allt sett á pönnu, blandað saman og mýkt í nokkrar mínútur. Sett í eldfast mót og svo er mjölblöndunni stráð yfir með fingrunum. Bakað í 20-30 mín.
við 200°C. Ég slumpa yfirleitt á magnið af ávöxtum, blanda oft saman því sem ég á. Það er aldrei of mikið, bara finna hvaða magn þér finnst passa best. Stundum saxa ég súkkulaði, nota rúsínur eða hnetur og strái yfir kökuna áður en hún fer í ofninn. Kakan er borin fram heit/volg med þeyttum rjóma eða vanilluís.

Verði ykkur að góðu!

Herdís skoraði á mömmu sína, Birgittu Pálsdóttur, að taka við matgæðingaþættinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir