Grafin ýsa, sætkartöflukjúlli og ísterta

Matgæðingarnir Elín Árdís og Unnar Bjarki með Björn Henrý. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Elín Árdís og Unnar Bjarki með Björn Henrý. Mynd úr einkasafni.

Það eru þau Elín Árdís Björnsdóttir og Unnar Bjarki Egilsson á Sauðárkróki sem gáfu lesendum uppskriftir í 47. tbl. ársins 2016. Í forrétt var grafin ýsa og í aðalrétt sætkartöflukjúlli með feta og furuhnetum. „Einnig nota ég mikið sömu uppskrift en skipti út kjúklingnum fyrir þorsk eða þorskhnakka, það kemur líka vel út,“ sagði Elín Árdís. Í eftirrétt buðu þau svo upp á glænýja uppskrift af ístertu með salthnetumarengsbotni sem birtist í  Nóa Síríus kökubæklingnum þetta ár.

Forréttur
Grafin ýsa

2-3 flök ýsa
1 gul paprika
1 rauð paprika
1½ laukur 

1½ flaska sítrónusafi
3 msk sykur
½ msk salt

Sósa
2 msk púðursykur
1 msk sætt sinnep
1 msk dijon sinnep
7 msk majónes
3-4 msk sýrður rjómi
2 tsk dill
¼ tsk pipar

Aðferð:
Ýsan er þunnsneidd og lögð í safann ásamt hráefninu. Laukurinn og paprikan smátt söxuð. Látið hvoru tveggja standa í a.m.k 4 klst.
Borið fram ofan á ristuðu brauði.

Aðalréttur
Sætkartöflu-kjúlli með feta og furuhnetum

1 stór sæt kartafla
1 poki spínat
4-5 kjúklingabringur
1 krukka fetaostur
1 rauðlaukur, skorinn fínt
Slatti af kokteiltómötum skornir í tvennt
Furuhnetur á toppinn
Balsamik gljái

Aðferð:
Sæta kartaflan skorin í skífur, krydduð með salti og pipar og pensluð með olíunni af fetaostinum. Sett í ofn í ca. 15-20 mínútur á 180°. Skerið kjúklinginn, kryddið eftir smekk og steikið stutt á pönnu. Næst eru kartöflurnar teknar út, spíntaið sett ofan á og svo kjúklingurinn. Tómatarnir, rauðlaukurinn, fetaosturinn og olían sett yfir og aftur inn í ofn og eldað í 30.mínútur. Ristaðar furuhnetur og balsamik gljái á toppinn áður en rétturinn er borinn fram. Himneskt með hrísgrjónum og smábrauði.

 

Eftirréttur
Ísterta með salthnetumarengsbotni (Nóa Síríus kökubæklingur 2016) 

Marengsbotn

3 eggjahvítur
2 dl sykur
50 g salthnetuð saxaðar

Aðferð:
Stífþeytið eggjahvítur og sykur saman. Salthnetunum blandað varlega saman við. Bakað í eina klst við 130°. Látið botninn kólna í ofninum.

Karmellukrem

3 eggjarauður
1 dl sykur
150 g Síríus rjómasúkkulaði með karmellu og sjávarsalti
4 dl þeyttur rjómi

Aðferð:
Þeytið eggjarauður og sykur vel saman eða þar til létt og ljóst. Saxið súkkulaðið og blandið við. Rjóminn þeyttur og blandað við að lokum. Kremið sett á botninn, kakan skreytt og sett í frysti í a.m.k. 4 klst.

Skraut

15 stk Góu-kúlur, bræddar í rjóma
50 g Síríus rjómasúkkulaði með karmellu og sjávarsalti saxað og notað til að skreyta toppinn!

Njótið vel!

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir