Grillaður humar í skel og uppáhalds gúllassúpan

Matgæðingarnir Herdís og Ævar. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Herdís og Ævar. Mynd úr einkasafni.

„Eitt skal taka fram, við erum súpufólk. Súpur eru algjör snilld, sérstaklega þegar þær eru heimagerðar. Við eldum oft stóra skammta af súpum og geymum svo í frysti, því það er svo afskaplega þægilegt að geta bara kippt upp einni dollu af súpu og hitað upp, það sparar okkur bæði tíma og uppvask á pottum, þetta er eiginlega bara svona „win win situation“, eins og maður segir á góðri íslensku,“ sögðu Herdís Harðardóttir og Ævar Marteinsson á Hvammstanga sem voru matgæðingar í 26. tbl. FEykis árið 2016.

„Á okkar heimili er það í flestum tilvikum Ævar sem sér um matseldina og er vert að taka það fram að hann er algjör snillingur í eldhúsinu og einnig úti á grillinu. Ég, frúin á heimilinu, er hins vegar ekki eins dugleg í eldhúsinu þegar kemur að matseld en fæ ég þó oft hlutastarf sem yfirsmakkari og aðstoðarhrærari. Það er þó eitt hlutverk sem ég hef eignað mér í eldhúsinu og það er bakstur, það er eitthvað sem ég hef gaman af og er alveg ágætlega fær í, þó ég segi sjálf frá.
En í dag ætlum við að deila með ykkur því besta úr matseldinni og því besta úr bakstrinum.“ 

Forréttur
Grillaður humar í skel

1 kg humar í skel (fyrir um 4)
hvítlaukssmjör
100 g smjör
1 msk steinselja
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir

Aðferð:
Bræðið smjörið í potti, bætið hvítlauk og steinselju út í og látið sjóða í um 2 mínútur. Humarinn er settur í bakka með skelhliðina niður og penslaður vel með hvítlauksblöndunni. Grillið á miklum hita í 6 mínútur og snúið af og til.
Humarinn er svo borinn fram með brakandi fersku salati og grilluðu hvítlauksbrauði. Einnig er gott að skera niður sítrónu og kreista yfir humarinn. 

Aðalréttur
Uppáhalds gúllassúpan okkar (fyrir 4-6)

Þessi gúllassúpa er uppáhaldið okkar og fer enginn svangur frá borði þegar þessi er í matinn. Við frystum síðan afganginn og getum þá gripið í hana við tækifæri.

600 g smátt skorið folaldagúllas
2 msk smjör
2-3 laukar, skornir í tvennt og svo sneiðar
½ chillialdin, fræhreinsað og skorið í sneiðar
1 tsk paprikuduft
1 tsk timían
1 tsk cumin
1 krukka tómatpassata (frá Sollu)
2 msk tómatpaste
1 msk hunang eða önnur sæta
1 l vatn – (fer þó aðeins eftir smekk)
2 teningar nautakraftur
1 stór bökunarkartafla, skorin í teninga
½  sæt kartafla, skorin í teninga
1½ dl rjómi
salt og pipar og fersk steinselja til að strá yfir í lokin. 

Aðferð:
Byrjið á að skera gúllasið í litla bita og kryddið með salti og pipar. Hitið stóran pott við háan hita og bræðið smjörið. Steikið kjötið þannig að það brúnist vel. Færið kjötið svo upp á disk og lækkið hitann. Steikið laukinn í 10-15 mínútur þannig að hann mýkist vel og taki á sig smá lit. Bætið kjötinu aftur út í ásamt chilli og kryddum og steikið aðeins áfram. Setjið tómatpasta saman við ásamt, kraftinum, tómötunum, hunangi og vatni og hleypið suðunni upp. Flysjið kartöflurnar á meðan suðan er að koma upp og bætið þeim svo út í. Leyfið súpunni að sjóða í 30 mínútur. Lækkið þá hitann, bætið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. Gott er að stappa kartöflurnar aðeins saman í pottinum til að þykkja súpuna aðeins. Leyfið súpunni að malla við vægan hita með loki í 2-4 tíma. Því lengur því betra. 

Eftirréttur/Kaka dagsins
Sylvíu kaka

Þessi kaka er ein sú auðveldasta sem hægt er að baka. Maður er enga stund að skella í hana og er hún alveg einstaklega gómsæt, sérstaklega nýbökuð. Ég hef oft hent í þessa þegar það bráðvantar eitthvað með kaffinu því hún er alveg hræðilega fljótleg.

2 egg
2 dl sykur
2 dl hveiti
1 dl vatn
2 tsk lyftiduft 

Glassúr:
75 gr smjör
1dl sykur (eða flórsykur)
2 tsk vanillusykur
1 eggjarauða
kókosmjöl

Aðferð:
Hitið ofninn í 175°C. Hrærið egg og sykur saman. Bætið vatninu við og hrærið snögglega. Bætið þurrefnunum útí og setjið í vel smurt form. Til að gera glassúr þá bræðið smjörið, hrærið öllu hinu saman við. Þegar kakan er tilbúin og gullinbrún er glassúrinn settur yfir og kókosmjöli stráð yfir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir