Hægeldaður hryggur og uppáhaldsnammikaka

Matgæðingarnir Þóra og Einar.
Matgæðingarnir Þóra og Einar.

 „Við heitum Þóra Margrét Lúthersdóttir og Einar Árni Sigurðsson. Við búum á bænum Forsæludal í Vatnsdal, þar rekum við sauðfjárbú ásamt því að eiga nokkur hross, hænur og hund,“ sögðu matgæðingar 41. tbl. Feykis árið 2017. Þóra og Einar tóku við búinu í Forsæludal árið 2014. Einar starfar sem vélstjóri hjá Samskipum en Þóra sér um börn og bú en börnin eru fjögur á aldrinum fjögurra til átta ára. Þau gáfu lesendum uppskriftir að þriggja rétta máltíð.

FORRÉTTUR
Baconvafðar döðlur

Ferskar döðlur (hægt að nota úr poka líka) - steinninn fjarlægður
gráðostur, cheddarostur er í uppáhaldi hjá okkur en nota má hvaða osta sem er, ostinum stungið inn í döðlurnar og beikoni vafið utan um

Aðferð:
Sett í ofn og bakað í 15-20 mínútur við u.þ.b. 160°C. Stundum kryddum við aðeins yfir með svörtum pipar eða chilli. Borið fram með sýrðum rjóma.

AÐALRÉTTUR
Hægeldaður hryggur af veturgömlu

Best er að taka kjötið úr frysti u.þ.b. sólahring áður en á að elda það. Hryggurinn er settur á ofnskúffu og látinn snúa öfugt. Kryddaður með salti og pipar. Kjötið, ásamt vatni og ananassafa, sett í ofnskúffu ásamt 1-2 teningum af kjötkrafti. Látið malla í 1½ klst. við 120°C.
Hryggnum snúið við og soðinu ausið yfir hann. Kryddaður með villibráðarkryddi frá Prima, ferskri steinselju, rósmarín og grófu sjávarsalti. Látinn malla áfram í 1-1½ klst. við 170°C.
Borinn fram með ofnbökuðu rótargrænmeti og brúnni sósu.

MEÐLÆTI
Rótargrænmeti
Laukur, sæt kartafla, kúrbítur, brokkólí og kartöflur skorið niður í bita. Sett í eldfast mót. Olíu hellt yfir og kryddað með salti, pipar og steinselju.
Látið maukast í ofni við 170°C í um 25 mínútur.

EFTIRRÉTTUR
Uppáhaldsnammikakan frá Fiðra frænda

40 g smjör
100 g súkkulaði
3 egg
250 g sykur
150 g hveiti
1 tsk. salt
1 tsk. vanilludropar

Aðferð:
Ofninn hitaður í 175°C.
Súkkulaði og smjör brætt saman í potti við vægan hita. Gott að kæla aðeins.
Egg og sykur þeytt saman þar til blandan verður ljós og létt, súkkulaðinu bætt varlega saman við í restina. Þurrefnum og dropunum bætt í.
Eldfast mót smurt og deiginu hellt í. Bakað í 15-20 mínútur.

Sósa

40 g smjör
100 g púðursykur
2 msk. rjómi
100 g pekanhnetur (ég sleppi alltaf hnetunum).

Aðferð:
Smjör og sykur hitað að suðu, hrært stöðugt í á meðan, látið sjóða í 1-2 mínútur. Kælt aðeins.
Rjómanum bætt út í og hrært vel saman við. Núna er sósunni hellt yfir kökuna og kakan aftur sett í ofninn við 175°C í 15-20 mínútur.
Þegar kakan er tekin úr ofninum skal strá grófusöxuðu súkkulaði yfir hana. Borin fram með ís. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir