Humarsúpa, lambahryggur og rabarbarabaka

Þau Anna Margrét Jónsdóttir og Sævar Sigurðsson á Sölvabakka í A-Hún. voru með ljúffengar uppskriftir í Feyki fyrir þremur árum. Humarsúpa, lambahryggur og rabarbarabaka geta ekki klikkað.

Forréttur:

Humarsúpa

  • 500 g  humar í skel
  • 3 fiskiteningar
  • 3 meðalstórar gulrætur
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 l vatn
  • 1 laukur
  • 1 paprika, græn
  • 1 lítil dós tómatkraftur
  • 1 l rjómi (má líka nota matreiðslurjóma)
  •      ljós sósuþykkir
  •      smjör til að steikja skeljarnar

Aðferð: Skelflettið og hreinsið humarinn. Brúnið skelina í potti ásamt hvítlauknum við vægan hita. Bætið vatni, tómatkrafti, gróft skornum lauk, papriku og gulrótum út í og látið krauma í 4 tíma. Sigtið soðið og bætið fiskikrafti út í. Þykkið soðið með ljósum sósuþykki eftir smekk og bætið svo rjómanum saman við. 15 mín áður en súpan er borin fram er humarinn settur út í. Passið að súpan sjóði ekki eftir það, humarinn á bara að hitna í gegn.

Aðalréttur:

Úrbeinaður lambahryggur með grænmetis- og fetaostfyllingu.

  • 1 lambahryggur, um 2 kg (einnig má nota læri)
  • hnefafylli af spínati
  • 2-3 vorlaukar
  • 12 svartar ólífur, steinlausar
  • 1-2 hvítlauksgeirar
  • 2 tsk. ferskt timían eða 3/4 tsk. þurrkað
  • 100 g fetaostur
  • nýmalaður pipar
  • salt

Hryggurinn er úrbeinaður í heilu lagi án þess að hann sé tekinn í sundur við háþornið og lagður á bretti með skurðflötinn upp. Lundirnar lagðar ofan á. Spínatið og vorlaukurinn grófsaxað og ólífurnar skornar í helminga. Hvítlaukurinn saxaður smátt. Grænmetinu, timíani og fetaosti blandað saman í skál og kryddað með pipar og svolitlu salti. Hryggurinn einnig kryddaður með pipar og salti og fyllingunni dreift á miðjuna. Þá er hryggurinn vafinn saman utan um fyllinguna og bundinn saman með t.d. sláturgarni. Ofninn hitaður í 180°C og kjötið steikt í ofnskúffu í u.þ.b. 1 klst. Hækkið þá hitann í 215°C og steikið áfram í 10-15 mínútur, eða þar til hryggurinn hefur tekið góðan lit. Látið hann standa í a.m.k. 10-15 mínútur áður en hann er skorinn. Steikingartími fer að sjálfsögðu eftir þykkt hryggjarins, e.t.v. minni en e.t.v. meiri og best er að nota kjötmæli.

Eftirréttur:

Rabarbarabaka

  • 300 g rabarbari
  • 100 g bláber
  • 1 stórt mangó
  • 3 msk. púðursykur

Rabarbarinn saxaður og komið fyrir í ofnföstu fati. Púðursykri stráð yfir. Sett í 160°C heitan ofn og álþynna sett yfir. Þegar rabarbarinn er bakaður eru bláberin og mangóið sett saman við (má líka nota aðra ávexti sem til eru, t.d. vínber og jarðarber).

Bræðið síðan saman í potti:

  • 50 g smjör
  • 50 g púðursykur
  • 1 msk. sýróp
  • 100 g gróft haframjöl

Smurt yfir ávextina og bakað án álpappírs í 20 mínútur við 160°C. Borið fram með rjóma eða ís.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir