Ítalskar uppskriftir frá Skagaströnd

Matgæðingarnir Ástrós og Valtýr á Skagaströnd.
Matgæðingarnir Ástrós og Valtýr á Skagaströnd.

„Okkur hjónunum finnst notalegt að dútla við matargerð og spjalla saman á meðan. Oftast sér Valtýr um hversdagseldamennskuna, soðningu og grjónagrauta, en Ástrós er meira fyrir að dedúa við mat í lengri tíma. Hún bjó á Ítalíu um árabil og tók með sér margar skotheldar uppskriftir þaðan. Þær hafa síðan breyst og lagast að okkar smekk í gegnum árin svo uppruni úr kokkabókum er óljós.
Við sameinum gjarnan krafta okkar þegar við viljum leggja meira í matinn, t.d. þegar von er á gestum og deilum með okkur verkum - Valtýr er t.d. orðinn mikill sósugerðarmeistari með árunum og Ástrós því hætt að koma nálægt sósum. Einn af okkar uppáhaldsréttum er lasagna sem krefst svolítils undirbúnings. Við erum ekkert alltof dugleg við að taka fram pastavélina en þegar við gerum það erum við alltaf jafn hissa á því hvað það er í rauninni lítið mál að gera pastað ferskt, svo ekki sé minnst á hvað það smakkast miklu betur. Eftirfarandi uppskriftir henta 6 manns (eða 4 svöngum),“ segja matgæðingar vikunnar, þau Ástrós og Valtýr sem voru matgæðingar í 19. tbl. Feykis árið 2016.

Caprese
3 stórar mozzarellakúlur
3-4 stórir tómatar
lúka af ferskri basilíku
ólífuolía
salt og pipar

Aðferð:
Skerið ostinn og tómatana í jafnþykkar sneiðar og raðið þeim á víxl í hring á fat. Klippið basilíku smátt og dreifið yfir hringinn, þarnæst hellið þið fíngerðri bunu af ólífuolíu yfir, saltið og piprið smávegis.

Ferskt lasagna að hætti Ástrósar

Hér má notast við hvort sem er, keyptar lasagnaplötur úr búð eða gera þær heima - en við mælum sterklega með því að prófa seinni kostinn. Það er virkilega handhægt að eiga pastavél í þetta verk, plöturnar verða þá allar jafnar og fínar og það tekur enga stund að fletja þær, en það er hins vegar vel hægt að fletja deigið bara út sjálfur með kökukefli. Deigið á að vera ansi þurrt.

ferskt lasagna - gert úr u.þ.b. 200 g af hveiti og tveimur eggjum (eða 300 g af þurrum lasagnaplötum)
1 stórt eggaldin
150 g ricotta (prófið kotasælu blandaða saman við mascarpone eða jafnvel rjómaost ef ricotta er ekki til)
50 g furuhnetur
8 msk tómatpasata (eins konar tómatsósa, alls ekki nota ketchup, selt í 700 ml glerflöskum)
rifinn ostur
ferskur basilico
ólífuolía
salt
grænt pestó
mozzarellur

Aðferð:
Skerið eggaldinið í sneiðar, leggið á disk og stráið grófu salti yfir. Leggið alltaf eldhúsrúllubréf á milli laga af eggaldinsneiðum. Svona fer biturleikinn úr eggaldininu á u.þ.b. tveimur tímum (í lagi að hafa það styttri tíma ef maður er í tímaþröng). Skolið svo hverja sneið af eggaldini undir vatni og þerrið með bréfi. Athugið að skola saltið vel af svo rétturinn verði ekki brimsaltur. Steikið eggaldinsneiðarnar í ólífuolíu á pönnu þangað til þær eru orðnar mjúkar og leggið á eldhúsrúllubréf sem tekur við mestu olíunni.
Saxið furuhneturnar smátt.
Hnoðið deig úr hveiti og eggjum á borðinu og látið standa undir viskustykki í smá stund. Fletjið út deigið afar þunnt (notið pastavél ef þið eigið hana til) og skerið til plötur sem passa í eldfast mót. Ágætt að setja örlítið af olíu í botninn áður. (Annars er hægt að kaupa þurrar lasagnaplötur og sjóða þær í potti örstutta stund - eiga að vera al dente - áður en þær eru lagðar í mótið).
Í fyrsta lagið er eingöngu sett grænt pestó og annað lag af lasagnaplötum sett beint ofan á það. Þá er helmingnum af eggaldinsneiðunum raðað snyrtilega ofan á lasagnaplöturnar og helmingnum af söxuðu furuhnetunum dreift yfir ásamt helmingnum af ricottunni (eða kotasælu/mascarponeblöndunni). Ofan á gúmmelaðið er stór mozzarellukúla rifin smátt og tómatpassötu loks dreift yfir allt saman (svona sirka 4 msk) ásamt ferskum niðurklipptum basilíkulaufum og smávegis ólífuolíu. Gerið aftur lag af lasagnaplötum og klárið svo hinn helminginn af fyllingunni þar ofan á, nákvæmlega eins og áður. Að lokum dreifið þið rifnum osti vel yfir.
Bakið í ofni við 180°C í ca. 40 mínútur.


Panna cotta (soðinn rjómi) með berjasósu

Sígildur ítalskur eftirréttur sem flestir eru vitlausir í. Í staðinn fyrir berjasósu má nota hvað sem er, súkkulaði- eða karamellusósu, eða jafnvel ekki setja neitt ofan á. Sumir saxa niður hnetur eða möndlur út á réttinn, gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn!

10 g matarlímsblöð
100 ml mjólk
500 ml rjómi
100 g sykur
1 vanillustöng
u.þ.b. 5 dl frosin berjablanda
2 msk sykur

Aðferð:
Leggið matarlímsblöðin í bleyti. Hitið mjólkina í potti en takið af hellunni rétt áður en hún fer að sjóða og kreistið allt matarlímið úr blöðunum ofan í mjólkina. Setjið rjóma, sykur og vanillustöng í annan pott við vægan hita og hrærið í þangað til suðan er komin upp. Þá er potturinn tekinn af hellunni, vanillustöngin veidd upp úr og mjólkurlímblöndunni hellt út í. Hellið blöndunni í kælt form (eitt stórt eða eitt lítið fyrir hvern gest, allt eftir smekk) og kælið í nokkrar klukkustundir á meðan hún stífnar.
Sjóðið saman frosin ber og sykur og hrærið í á meðan, kremjið sum ber en önnur ekki, þangað til sósan þykknar. Smakkið til og bætið við sykri ef ykkur þykir hún of súr. Hellið sósunni heitri yfir réttinn rétt áður en hann er borinn fram og tyllið heilum berjum ofan á, til skreytingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir