Ítölsk kjúklingasúpa og grillaður ananas með ís

Karítas og Arnar. Mynd úr einkasafni.
Karítas og Arnar. Mynd úr einkasafni.

„Hér er smá uppskrift sem er fljótlegt að gera og er alveg rosalega góð. Svakalega holl og matarmikil. Fundum hana upprunalega á eldhússögur.is og eldum hana reglulega. Okkur finnst líka alveg frábært hvað það þarf lítið að vaska upp, það bara fer allt í sama pottinn,“ segja matgæðingar vikunnar, í 35. tölublaði Feykis árið 2015, Karítas Sigurbjörg Björnsdóttir og Sigurður Arnar Björnsson á Sauðárkróki.

Aðalréttur
Ítölsk kjúklingasúpa með tortellini 
(fyrir 4-6)

700 g kjúklingur, skorinn í bita
1 gulur laukur, saxaður smátt
3 hvítlauksrif, söxuð smátt
1 stór paprika skorin í bita
1 brokkolíhaus (ca. 250 g), skorinn í bita
1 msk ólífuolía
2 l vatn, (fer aðeins eftir því hvort er notað ferskt eða pakka tortellini, þarf meira vatn ef notað er úr pakka)
3 teningar kjúklingakraftur
2 msk tómatpúrra
salt & pipar
uppáhalds ítalska pasta kryddið þitt
250 g tortellini (t.d. ferskt tortellini með ricotta og basiliku eða frá Barilla með osti)
4 -6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
30 g fersk basilika, söxuð
parmesan ostur, rifinn (hægt að sleppa)

Aðferð:
Laukur, hvítlaukur, paprika og brokkolí léttsteikt upp úr ólífuolíu í stórum potti. Því næst er vatni, kjúklingakrafti, tómatpúrru bætt út í pottinn ásamt kryddinu. Suðan er látin koma upp og kjúklingnum bætt út í. Kjúklingurinn er látinn sjóða í um 7 mínútur. Þá er tortellini, sólþurrkuðum tómötum og 2/3 af basilikunni bætt út og soðið eins lengi og segir til um á tortellini pakkningunni. Smakkað til með kryddinu eftir þörfum. Borið fram með restinni af basilikunni og rifnum parmesan osti ásamt góðu brauði.

Eftirréttur
Grillaður ananas með ís 

Í eftirrétt þarf eitthvað létt og ferskt þar sem súpan er mjög matarmikil. Þá er um að gera að skella í grillaðan/ofnbakaðan ananas með ís og svo er alveg nauðsynlegt að láta fylgja með slatta af bræddu súkkulaði.

Verði ykkur að góðu!

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir