Kjúklingaréttur og syndsamlega góð skyrterta

Matgæðingurinn Jóhanna Helga. Aðsend mynd.
Matgæðingurinn Jóhanna Helga. Aðsend mynd.

Það er hún Jóhanna Helga Sigtryggsdóttir sem ætlar að bjóða okkur upp á girnilegar kræsingar þessa vikuna. Jóhanna býr á Hvammstanga en er ættuð af Vatnsnesi og úr Víðidal. Hún vinnur á leikskólanum Ásgarði og einnig í félagsmiðstöðinni Órion. Uppáhaldsmatur Jóhönnu er jólamaturinn, svínakjöt, brúnaðar kartöflur og meðlæti en hún segist hafa mjög gaman af matseld og að prufa alls konar uppskriftir. „Mér finnst gaman að elda góðan mat og bjóða vinum og ætla að vera duglegri við það í ár í nýja húsinu mínu,“ segir Jóhanna. Þátturinn birtist í 24. tbl. Feykis í júní 2017. 

AÐALRÉTTUR
Kjúklingaréttur með piparosti, hvítlauk og pestó

4-5 kjúklingabringur
4 hvítlauksrif, söxuð smátt
½ l matreiðslurjómi
1 piparostur (þessir hringlaga)
1 krukka rautt pestó

Aðferð:
Léttsteikið hvítlaukinn í um það bil ½ -1 msk af smjöri. Bætið þá matreiðslurjóma, piparosti og rauðu pestó, saman við. Bræðið ostinn.
Brúnið kjúklingabringurnar á annarri pönnu, á báðum hliðum og setjið síðan í eldfast mót. Hellið sósunni yfir bringurnar og látið inn í 175°C heitan ofn í um hálftíma eða þar til kjúklingabringurnar eru fulleldaðar.
Með þessu borða ég ferskt salat og franskar kartöflur eða sætar kartöflur bakaðar í ofni. 

EFTIRRÉTTUR
Syndsamlega góð Daimskyrterta

Botn:
1 Lu Bastogne kex pakki
80–100 g íslenskt smjör

Aðferð:
Brjótið kexið niður í matvinnsluvél og setið hana á fullt þar til kexið er orðið vel mulið. Næst klípið þið smjörið út í, gott að hafa það í u.þ.b. 10-15 mín. á eldhúsborðinu áður en það er sett út í svo það mýkist aðeins. Ég þrýsti síðan botninum í formið og setti vel upp með hliðunum til þess að búa til skál og fylli síðan upp í með ostafyllingunni. Skellið botninum inn í kæli á meðan þið útbúið fyllinguna svo hann nái að harðna.

Fylling:
250 ml rjómi
400 g vanilluskyr
1 tsk vanillusykur
80 g hvítar súkkulaðiperlur frá Nóa Síríus, bræddar
40 g karamellupipp, brætt
2 stór Daim, smátt söxuð

Aðferð: Byrjið á því að þeyta rjómann og bætið síðan vanilluskyrinu saman við. Á meðan rjóminn er að þeytast er hvíta súkkulaðið brætt í potti við vægan hita og látið kólna aðeins áður en því er bætt út í fyllinguna. Bræðið karamellupipp við vægan hita og bætið smá rjómagusu út í, bætið út í fyllinguna. Síðast fara vanillusykurinn og Daimið út í, blandið því vel saman við. Hellið fyllingunni ofan í botninn og kælið í ísskápnum í smá tíma áður en skreytt er.

Skreyting:
60 g karamellupipp + smá rjómi
2 tsk sýróp
smá niðurskorið Daim.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir