Matgæðingur í tbl 21 - Misgáfulegir pastaréttir Dósa

Karen Lind, Salka og Sæþór. MYND AÐSEND
Karen Lind, Salka og Sæþór. MYND AÐSEND

Matgæðingur vikunnar í tbl 21 á þessu ári var Sæþór Már Hinriksson en hann starfar sem framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Tindastóls ásamt því að skemmta fólki með tónlistarflutningi þegar hann má vera að og námsmaður með meiru. Sæþór er í sambúð með Karen Lind Skúladóttur og eiga þau eina dóttur saman, Sölku Sæþórsdóttur.

Þegar Feykir hafði samband við Sæþór til að óska eftir upplýsingum í matarþáttinn viðurkenndi hann að fyrra bragði að eldamennska væri ekki hans sterkasta hlið. En hver veit, kannski er einhver þarna úti sem getur nýtt sér þessar misgáfulegu pastauppskriftir sem hann sendi inn. 

PASTARÉTTUR1
Humarpasta

    500 g tagliatelle pasta (einn stór pakki, t.d. frá De Cecco)
    2 pakkar skellaus humar (t.d. frá Sælkerafiski)
    olía til steikingar
    4 msk. smjör
    4 msk. fljótandi humarkraftur
    2 dl hvítvín
    500 ml rjómi
    4 stk. hvítlauksgeirar
    skvetta af sítrónusafa eftir smekk
    rifinn ostur eftir smekk, t.d. Primadonna eða Feykir.

Aðferð: Pastað er soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Humarinn steiktur upp úr olíu og smjöri. Hvítlauk, sítrónusafa, hvítvíni og humarkrafti bætt út á ásamt rjómanum. Að endingu er pastanu bætt út á ásamt rifnum osti. Gott er að bera þetta fram með hvítlauksbrauði.

PASTARÉTTUR2
Töfrandi þynnkupasta Dósa

    500 g Penne pasta
    eitt bréf beikon
    stór pylsupakki (10 stk)
    olía til steikingar
    slatti af tómatsósu
    2 stk. hvítlauksgeirar

Aðferð: Pastað soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Pylsur og beikon skorið í litla bita og steikt á pönnu upp úr olíu. Hvítlauk bætt við á pönnuna. Tómatsósu glussað yfir það sem er á pönnunni. Pastað sett á pönnuna og öllu blandað vel saman við háan hita, best er að pastað verði aðeins stökkt. Að endingu er meiri tómatsósu glussað yfir eftir þörfum. Skolast niður með þreföldum treó í vatni og nú líður öllum vel. Þið getið þakkað mér fyrir ef þið rekist á mig á förnum.

Verði ykkur að góðu!
Sæþór skoraði á yngstu hjónin á Ytra-Skörðugili, þau Pál Ísak Lárusson og Freyju Fannberg Þórsdóttur, að spreyta sig sem matgæðingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir