Matgæðingur vikunnar - Moussaka og ein frönsk

Linda Fanney og Jóhannes Björn og dæturnar. MYND AÐSEND
Linda Fanney og Jóhannes Björn og dæturnar. MYND AÐSEND

Linda Fanney og Jóhannes Björn | Hafnarfirði

Matgæðingar vikunnar, tbl 5 2022, eru Linda Fanney Valgeirsdóttir frá Vatni á Höfðaströnd og eiginmaður hennar, Jóhannes Björn Arelakis frá Siglufirði. Linda Fanney starfar sem framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Alor ehf. og Jóhannes er sérfræðingur hjá Advania. Þau búa í Setberginu í Hafnarfirði ásamt dætrunum Karólínu Bríeti og Steinunni Diljá.

Linda segist einungis hafa samþykkt að taka þátt í áskoruninni ef Jóhannes væri einnig með. „Verkaskiptingin á heimilinu er þannig að hann eldar og ég baka.“ Þar sem Jóhannes er hálfur Grikki liggur beinast við að deila grískri uppskrift með lesendum Feykis auk einnar klassískrar blautrar, franskrar súkkulaðiköku sem aldrei klikkar. 

AÐALRÉTTUR
Moussaka
    2 dl olía til steikingar
    500 g hakk - lamba eða nauta
    500 g kartöflur
    500 g eggaldin skorið í sneiðar
    1 hvítlauksgeiri, fínsaxaður
    1 stór laukur, fínsaxaður
    salt og pipar
    1 1/2 kg tómatar saxaðir (aðeins síaður safinn frá þeim)
    1 tsk. kanill
    1 tsk. cumin
    1 tsk. oregano
    1 tsk. allrahanda krydd
    2 dl hvítvín
    Gruyere ostur (má nota raclette eða svipað)
    söxuðu steinselja

Bechamel sósa:
    6 msk. smjör
    2 dl hveiti
    600 ml mjólk aðeins hituð upp
    salt og hvítur pipar
    2 msk. rifinn parmesan ostur
    2 eggjarauður

Toppur:
    1/2 dl rifinn parmesan eða Guyere
    1/2 dl brauðrasp

Aðferð: Sjóðið kartöflunar í 10 mín. í söltuðu vatni. Skrælið kartöflunar, skerið í jafnar sneiðar um 0,5 sm þykkar og þerrið aðeins. Steikið kartöfluskífunar upp úr olíunni á pönnu eða í steypujárnspotti þangað til þær eru gullinbrúnar á báðum hliðum. Takið af pönnunni og þerrið á eldhúspappír. Setjið laukinn og hvítlaukinn út á sömu pönnu og steikið þangað til laukurinn er orðinn mjúkur. Bætið kjötinu, salti og pipar út í eftir smekk, tómötunum, kryddinu og hvítvíninu. Steikið á pönnunni í um 20 mín. þannig að úr verði kjötsósa. Bætið við osti og steinselju. Hitið olíu á annarri pönnu og veltið eggaldinssneiðunum upp úr hveiti og steikið á báðum hliðum þangað til þær eru gullinbrúnar. Takið eldfast mót og raðið kartöfluskífum neðst. Því næst eggaldinsneiðum og setjið helminginn af kjötsósuni yfir. Bætið annari umferð af kartöflum og eggaldinsneiðum og setjið svo restina af kjötsósunni yfir og endið svo á kartöflum og eggaldinsneiðum þannig að þær séu efst.

Bechamel sósa:
Bræðið smjör í potti á lágum hita. Takið af heitri hellunni og bætið hveitinu við rólega þangað til vel blandað saman. Setjið pottinn aftur á heita helluna og bætið mjólkinni og kryddi rólega saman við. Hrærið stöðugt í á meðan. Látið malla í 10 mín. þangað til sósan þykknar upp. Takið af hellunni og látið standa í 2 mín. Bætið síðan eggjarauðum og ostinum út í. Hrærið vel saman. Ætti að mynda þykka sósu. Hellið síðan sósunni yfir kjötréttinn í eldfasta mótinu. Stráið smá osti og brauðraspi yfir og bakið í ofni í 1 klst. við 175°C.

EFTIRRÉTTUR
Frönsk súkkulaðikaka
    300 g suðusúkkulaði
    200 g smjör
    4 egg
    2 dl flórsykur
    1 1/2 dl hveiti
    1/2 tsk. lyftiduft
    ögn af salti

Krem:
    200 g suðusúkkulaði
    70 g smjör
    2 msk. sýróp

Aðferð: Bræðið saman súkkulaði og smjör við lágan hita. Þeytið saman egg og flórsykur þar til blandan verður ljós og létt. Hrærið súkkulaðiblöndunni varlega saman við og því næst þurrefnunum. Bakið í smelluformi sem klætt hefur verið með smjörpappír. Bakið í 30 mín. í miðjum ofni við 160°C með blæstri en 180°C án blásturs. Látið kólna aðeins í forminu áður en kreminu er smurt yfir allt saman. Líka hliðarnar. Það er lykilatriði.

Verði ykkur að góðu!

Linda Fanney og Jóhannes skora á stórvini sína, Söru Katrínu og Hjölla píp, að eiga næsta leik. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir