Mean Ass Horse Chili, bjórskankar og rabbarbarakaka

Matgæðingarnir Bjarni Kristófer og Agnes-Katharina. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Bjarni Kristófer og Agnes-Katharina. Aðsend mynd.

Bjarni K. Kristjánsson og Agnes-Katharina Kreiling á Hólum í Hjaltadal voru matgæðingar í 25. tbl. Feykis 2017 þegar þessi þáttur birtist:

Bjarni hefur búið á Hólum í nærri 20 ár og starfar sem prófessor við Háskólann á Hólum.  Agnes, sem hefur verið á Íslandi í þrjú ár, hefur leigt hjá Bjarna síðastliðina átta mánuði og stundar doktorsnám við skólann.  Bæði eru miklir matgæðingar og finnst gott að borða góðan mat og drekka með honum góðan bjór. Hér á eftir fylgja þrjár uppskriftir sem hægt er að nota ef fjölda gesta ber að garði.

RÉTTUR 1
Mean Ass Horse Chili

Þessa uppskrift má aðlaga að fjölda þeirra sem eru að koma í heimsókn, best er þó að elda nóg, því chili er best upphitað.

1½ kg hrossahakk
olía
4 laukar
1½ hvítlaukur
4 dósir chillitómatar í dós
3 dósir chillibaunir í dós
2 dósir svarbaunir í dós
1 dós kjúklingabaunir í dós
2 msk chilli
2 msk ceyenpipar
1-2 dósir jalapenos
1 tsk kúmen
1 tsk reykt sterk paprika
2 ten. nautakraftur 

Aðferð:
Náið í stóra pottinn hennar mömmu ykkar. Setjið slatta af olíu í botninn, skerið niður laukinn og hvítlaukinn og steikið í olíunni, þangað til hann er gullinn. Kryddið yfir laukinn með chilli, kúmen og ceyenpipar. Takið laukinn í burtu og steikið kjötið í pottinum, þar til kjötið er brúnað, bætið lauknum aftur í pottinn og hrærið saman. Nú þarf að opna dósir, setjið chillitómata, chillibaunir, svartbaunir og kjúklingabaunir út í, nú ætti potturinn að vera orðinn ansi vel fullur. Bætið í nautakrafti. Nú er að láta kássuna hitna í gegn og fara að bulla, munið að hræra. Þá er að krydda með chilli, ceyenpipar, reyktri papriku (passið ykkur að setja ekki of mikið) og kúmen eftir smekk. Fyrir þá sem vilja hafa kássuna sterka þá er gott að bæta 1 – 2 dósum að jalapenos út í kássuna. Nú er að láta malla í langan tíma við lágan hita.
Berið svo fram með rifnum osti, sýrðum rjóma og tortilla flögum. Gott er að drekka með þessu amerískan bjór.

RÉTTUR 2
Bjórskankar (fyrir 3-4) 

3 lambaskankar
kartöflur
sætar kartöflur
laukur
rófur
gulrætur
sellerí
maltríkur bjór, t.d. Hobgoblin 

Sósa:

smjör
hveiti
kraftur
rjómi
rabbabarasulta

Aðferð:
Kaupið þrjá væna lambaskanka. Komið þeim fyrir í steikingarpotti, kryddið með Best á lambið og piri piri. Skerið niður grænmetið í grófa bita og komið fyrir í pottinum með skönkunum, þannig að skankarnir hverfi. Samsetning á grænmetinu ræðst nokkuð af því hvað er til í skápnum og/eða eftir smekk manna. Kryddið yfir grænmetið með Best á lambið. Hellið yfir um 1 l af bjór, mikilvægt að bjórinn sé maltríkur og ekki bitur,  og ½ l af vatni. Setjið lokið á steikingarpottinn og komið fyrir í ofni á um 120°C. Látið vera í ofninum í 3–4 klst. Síðasta  hálftímann er ágætt að hafa pottinn opinn.  Hellið mestu af soðinu af og hirðið. 
Bakið upp sósu, þ.e. búið til smjörbollu, 50/50 smör og hveiti hrært saman, hellið soðinu út í og hrærið upp, þannig að úr verður jafningur, bætið rjómanum út í og kjötkraftinum, auk þess að nota smá Best á lambið og piri piri. Setjið eina matskeið af sultu. Hrærið þessu öllu saman, munið að smakka á sósunni og bæta kryddi í eftir smekk.  Nú er allt tilbúið, grænmeti með skönkunum, sósa og einnig er gott að hafa rabbabarasultu til hliðar. Drekkið góðan bjór með.

EFTIRRÉTTUR
Rabbarbarakakakeru 

Deig:
250 g hveiti
150 g smjör
75 g sykur
1 eggjarauða

Aðferð:
Hnoðið allt saman í mjúkt deig eftir hefðbundnum leiðum og látið það síðan hvíla sig í ískápnum í um hálftíma. Rúllið deiginu út og komið fyrir í smurðu kökumóti, miklvægt er að deigið nái upp á hliðarnar. 

Fylling:
1 kg rabbarbari
2 eggjarauður
2 msk sykur
2 tsk sterkjuhveiti (kartöflumjöl??)

Aðferð:
Skerið rabbarbarann í smáa bita, blandið honum saman við önnur innihaldsefni og setjið yfir deigið. Bakið við 150-180°C í um 40 mínútur. Til að gera marengstopp þá þeytið þið saman þrjár eggjahvítur og 150 g af sykri. Dreifið yfir kökuna og bakið í 10–15 mínútur. Það er um að gera að fá sér stóra sneið af þessari dásemd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir