Svínakjöt í súrsætri sósu og rabarbarakaka

Ragna og Pétur voru matgæðingar vikunnar í 28. tölublaði Feykis árið 2012.
Ragna og Pétur voru matgæðingar vikunnar í 28. tölublaði Feykis árið 2012.

Þau Ragna Jóhannsdóttir og Pétur Valdimarsson á Sauðárkróki voru Matgæðingar vikunnar í 28. tölublaði Feykis 2012, Þau buðu upp á grænmetissúpu með tortellinni í forrétt, svínakjöt í súrsætri sósu í aðalrétt og rabarabaraköku með ristuðu kókosmjöli í eftirrétt.

Forréttur

Grænmetissúpa með Tortellini

  • Kartöflur
  • laukur
  • blómkál
  • gulrætur
  • rófa
  • brokkoli
  • rauð og græn paprika
  • sæt kartafla
  • tortellini með osti og skinku
  • grænmetisteningur
  • kjúklingateningur
  • salt
  • pipar
  • matreiðslurjómi
Aðferð:

Sérstaklega góð og seðjandi súpa.Magn grænmetis fer eftir smekk.Þvoið grænmetið og flysjið kartöflur, rófu gulrætur og lauk. Skerið svo allt í hæfilega bita. Setjið í pott ásamt Tortellini og látið vatn fljóta yfir, bætið grænmetis og kjúklingateningum út í. Sjóðið í um það bil 20 mín. og smakkið til ef þurfa þykir með meiri teningum og salti og pipar. Setjið að síðustu rjóma útí og látið suðu koma upp. Súpan er mjög góð ein og sér en líka er upplagt að hafa hvítlauksbrauð með.

Aðalréttur

Svínakjöt í súrsætri sósu

  • 1 kg svínakjöt, í litlum bitum
  • 250 gr bambusskot (bamboo shots)
  • 1 græn paprika, í strimlum
  • 2 laukar, í strimlum
  • 1 tsk salt
  • 2 msk koníak eða þurrt sérrí
  • 2 egg
  • 4 msk maizenamjöl
  • 4 msk hveiti
Sósa:
  • 6 msk edik
  • 6 msk sykur
  • 1 tsk salt
  • 1 lítil dós tómatpuré
  • 2 msk soyasósa
  • 1 tsk sesamolía
Aðferð:

Blandið saman salti og koníaki, hrærið því saman við kjötið og látið standa í 15 mín. Hrærið saman egg, maizenamjölinu og hveiti og hrærið blöndunni saman við kjötið. Djúpsteikið kjötbitana í 3-5 mín eða þar til þeir eru fallega brúnaðir. Gætið þess að setja ekki of mikið á pönnuna í einu því þá kólnar olían. Þegar allt kjötið hefur verið steikt eru bambusskotin djúpsteikt í 2-3 mín, kjötið sett aftur á pönnuna og steikt áfram í 2 mín. Takið af pönnunni og hellið olíunni en skiljið eftir u.þ.b. 2 msk. Steikið þá laukinn og paprikuna í nokkrar mín, bætið öllu sem á að fara í sósuna saman við og látið sjóða í nokkrar mín eða þar til að sósan hefur þykknað. Bætið þá kjötinu og bambusskotunum saman við og blandið vel saman. Borið fram með soðnum hrísgrjónum.

Eftirréttur

Rabarbarakaka með ristuðu kókosmjöli

  • ½ kg rabarbari, hreinsaður og skorinn
  • 1 ½-2 dl sykur
  • 1 tsk engifer

Lok:

  • 2 stór egg
  • 1 dl sykur
  • 1 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2½ dl ristað kókosmjöl
Aðferð:

Hitið ofn að 180°C og smyrjið stórt eldfast mót. Blandið saman rabarbara, sykri og engifer í botninn á eldfasta mótinu. Bakið í 10 mín.

Lok: Ristið kókosmjölið þar til það er ljós brúnt. Þeytið egg og sykur ljóst og létt, blandið þurrefnunum saman við ásamt ristuðu kókosmjöli. Hellið yfir rabarbarann og bakið í u.þ.b. 35-40 mínútur eða þar til kakan er gegnbökuð. Berið fram með þeyttum rjóma og /eða ís.

Verði ykkur að góðu!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir