Tómatsúpa með pasta og bananabrauð

Matgæðingarnir Kristín Jóna og Valur.
Matgæðingarnir Kristín Jóna og Valur.

„Þar sem við fjölskyldan erum frekar upptekin við vinnu, skólagöngu, hestamennsku og fótbolta veljum við okkur yfirleitt eitthvað fljótlegt í matinn. Við sendum hér tvo rétti sem eru vinsælir á okkar borðum,“ sögðu þau Kristín Jóna Sigurðardóttir og Valur Valsson á Blönduósi, sem voru matgæðingar Feykis í 43. tbl. 2016. „Um helgar á húsfreyjan það til að baka eitthvað með kaffinu. Vinsælast hjá heimilisfólkinu eru pönnukökur og þetta fljótlega bananabrauð.“

Tómatsúpa með pasta
(uppskrift fyrir 3-4)

2 dl ósoðið heilhveitipasta
1 dós hakkaðir tómatar með basiliku, hvítlauk og oreganó (411 g)
1½ dl vatn
½ laukur, hakkaður
1 hvítlauksrif, pressað
1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
1 grænmetisteningur
1½ tsk þurrkuð basilika
1 tsk sykur
salt og pipar

Aðferð:
Sjóðið pastað í vel söltu vatni (verið óhrædd við að nánast missa saltstaukinn í vatnið) og skolið síðan í köldu vatni.
Hakkið og steikið laukinn við vægan hita þar til hann er orðinn mjúkur en ekki farinn að brúnast. Bætið öllum öðrum hráefnum, fyrir utan pastað, saman við og látið sjóða í 10 mínútur. Smakkið til og bætið pastanu í súpuna. Berið fram með ferskrifnum parmesan og góðu brauði.

Pasta í rjómasósu með beikoni og sveppum
(uppskrift fyrir 3-4)

500 g heilhveitipenne – soðið samkvæmt leiðbeiningum
250 g sveppir (1 box)
130 g beikon
1 laukur
2 dl sýrður rjómi
2 dl matreiðslurjómi
½ grænmetisteningur
salt og pipar
smá af cayenne pipar (má sleppa)

Aðferð:
Skerið sveppina í fernt, hakkið laukinn og skerið beikonið í bita. Hitið smjör á pönnu og steikið sveppina þar til þeir eru komnir með góða steikingarhúð, bætið þá lauk og beikoni á pönnuna og steikið áfram þar til beikonið er fullsteikt og laukurinn orðinn mjúkur. Hellið rjóma og sýrðum rjóma yfir og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Smakkið til með grænmetiskrafti, salti og pipar.

Bananabrauð

2 bollar hveiti
1 bolli sykur (óhætt að minnka um helming)
1 egg
1 tsk natron
½ tsk salt
2-3 vel þroskaðir bananar – stappaðir

Aðferð:
Öllu blandað í skál. Bakað í jólakökuformi í eina klukkustund við 150 gráður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir