Tveir frábærir lifraréttir
Þau Gógó og Pétur á Sauðárkróki komu með tvær uppskriftir með lambalifur í aðalhlutverki í Feyki árið 2009. Lambalifur er ódýr og góður matur og má elda á ýmsa vegu.
Uppáhald Péturs:
Lifrabuff:
- 1 kg lifur
- 1-2 stk laukar
- 1/2 kg kartöflur (hráar)
Þetta er mixað saman og síðan sett í fat. Salt og pipar (eftir smekk) + hveiti og mjólk er bætt út í og hrært saman við með sleif (þykktin á að vera ca eins og lummudeig). Síðan eru búnir til litlir klattar (með matskeið) og steikt á pönnu. Borið fram með kreppulausri hugsun, kartöflumús, rabarbarasultu og rauðkáli.
Sérréttur Gógóar:
Masala lifur (fyrir fjóra)
- 2 stk. lambalifur
- 3 stk. laukur
- 1 stk. hvítlauksrif
- 3 stk. Garam Masala krydd
- 1 ds. jógúrt (án ávaxta)
- 1 ds. rjómaostur (lítil)
- 1/2 bolli rjómi
- 1 ds. niðursoðnir tómatar
- 3 msk. shoyu sósa
- smjör, arómat og salt eftir smekk.
Lifrin skorin í sneiðar, krydduð létt með arómat og salti og snöggsteikt á pönnu. Síðan látin í eldfast fat. Laukurinn saxaður smátt og hvítlaukurinn marinn saman við og steikt í smjöri á pönnunni. Masala kryddið, jógúrtin, rjómaosturinn, tómatarnir, rjóminn og shoyu sósan sett út á og látið krauma í 5-10 mín. Sósunni er síðan hellt yfir lifrina og sett í heitan ofn í 5-10 mínútur.
Borið fram með bros á vör, rabarbarasultu, hrísgrjónum og eða soðnum kartöflum :)
Látum fylgja með eina þá ljúffengustu tertu, sem til er í heimi og heitir hún líka Heimsins besta.
Heimsins besta:
- 4stk. eggjahvítur
- 2 bollar mulið kornflakes
- 200 gr. sykur
- 1 tsk lyftiduft
Eggjahvíturnar stífþeyttar og sykrinum bætt út í og þeytt áfram. Kornflakes og lyftidufti bætt varlega saman við. Sett í tvö lausbotna kökuform. Bakað í 1 klst. við 120 gr. Lagt saman með 1/2 lítra af þeyttum rjóma, sem í er brytjað súkkulaði (ca 1-2 plötur)
Krem:
4 stk. þeyttar eggjarauður með 100 gr. bræddu suðusúkkulaði + 100 gr flórsykur og hellt yfir tertuna :)
Borðuð í góðra vina hópi, þar sem aðallega er rætt um húsnæðismál og rennt niður með ljúffengu kaffi :)
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.