Rabb-a-babb 165: Álfhildur

Álfhildur í útlöndum. AÐSEND MYND
Álfhildur í útlöndum. AÐSEND MYND

Nafn: Álfhildur Leifsdóttir.
Árgangur: 1977.
Fjölskylduhagir: Ég er einstæð móðir Halldóru 12 ára, Sindra 11 ára og Kötlu 5 ára.
Búseta: Sauðárkrókur.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Ég er dóttir Kristínar og Leifs frá Keldudal, yngst af sex systkinum og var svo heppin að alast þar upp við bústörf og hestamennsku þar til ég fór suður í háskólanám.
Starf / nám: Ég er menntaður kerfisfræðingur og grunnskólakennari og starfa við kennslu í Árskóla. Að auki er ég einn af þremur Apple Professional Learner Specialist á landinu sem þýðir að ég kem að endurmenntun annarra kennara víða um land hvað varðar tækni í skólastarfi, sem er gríðarlega skemmtileg vinna. 
Hvað er í deiglunni: Ég tók nýverið sæti í sveitarstjórn Skagafjarðar og er afar þakklát því trausti sem mér hefur verið sýnt. Þar bíða mörg verkefni sem ég hlakka til að takast á við með góðu fólki. Ég fékk líka nýverið það hlutverk að vera eTwinning sendiherra á Íslandi, en eTwinning er rafrænt skólasamfélag Evrópu og þar bíða örugglega nokkur skemmtileg verkefni. Að auki stendur til að skottast eitt hálfmaraþon í Eistlandi í haust og kíkja með saumaklúbbnum til Dublin, en aðalatriðið er þó alltaf að njóta hversdagsleikans með börnunum mínum.  

Hvernig nemandi varstu?  Ég held að ég hafi verið ágætlega þolanleg - að minnsta kosti er fyrrverandi umsjónarkennari minn núverandi skólastjórinn minn, en kannski er hann bara fljótur að gleyma :) 

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Þegar aldraður frændi minn óskaði mér til hamingju með daginn og ég heyrði hann muldra: „Hvur andskotinn, er þetta stelpa…” þegar hann gekk í burtu, en ég var burstaklippt í skítagallanum fram að fermingu og var ævinlega heilsað sem dreng þegar ég var yngri. 

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Sálfræðingur – en þar sem ég var í mörg ár með sumarskóla fyrir fósturbörn sem voru hjá mömmu og pabba í sveit, þá vissu víst allir í kringum um mig að ég yrði kennari, nema ég. 

Besti ilmurinn? Lyktin af nýslegnu grasi og ilmurinn af pönnukökunum hennar mömmu. 

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? U2 - og þeir eru enn uppáhalds.

Hvernig slakarðu á? Með því að hlaupa og prjóna. Ég hanna prjónavörur undir merkinu Elfs Design og sel hingað og þangað um heiminn. 

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég horfi almennt ekki á sjónvarp. Þar sem er yfirleitt nóg að gera þá nota ég kvöldin yfirleitt í vinnu þegar börnin eru sofnuð. Ef ég hins vegar kveiki á sjónvarpinu verður N4 stöðin yfirleitt fyrir valinu.

Besta bíómyndin? Notting Hill - því Spike er flottastur.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Ég hefði seint trúað mér til þess að segja þetta en ég er kolfallinn fyrir landsliðinu okkar í fótbolta. Ég eltist við að horfa á leikina nú í sumar m.a. á írskum bar í Chicago, flugvelli í London, strönd á Kalamata í Grikklandi og á götuhorni í Aþenu. Alls staðar fann ég stuðninginn við Ísland og áhugann á okkar litlu þjóð sem er samt svo öflug. Fátt hefur sameinað þjóðina á eins jákvæðan hátt eins og landsliðið í fótbolta hefur gert síðustu ár, þeir eru algjörlega magnaðir. Núna hlakka ég til að fylgjast með kvennaboltanum næst. 

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?  Ég geri nokkurnveginn allt á heimilinu, en er þó mun flinkari með ryksuguna en borvél þó ég brúki hvoru tveggja. 

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Börnin mín myndu sennilega segja Lasagne en ég tel að sérgreinin sé að elda allt mjög hratt, enda yfirleitt að flýta mér.

Hættulegasta helgarnammið? Það er ekkert sem heitir helgarnammi þegar maður borðar gott súkkulaði alla daga...

Hvernig er eggið best? Hrært ofan á beiglu.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?  Hvað ég er ómannglögg og gleymin. Og brjálæðislega lofthrædd, er t.d. talsvert að vinna með kertaljós þegar ljósaperurnar springa. Ég asnaðist til að kaupa íbúð á annarri hæð og klöngrast nú skjálfandi upp stillansa til að mála húsið að utan. Það örlar á kaldhæðni hjá börnunum mínum þegar þau kalla mig spidermom... 

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óheiðarleiki og neikvæðni.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? „Dreams don´t come true,  decisions do.“  

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera?  Ég myndi vilja vera David Attenborough. Fróðleikurinn sem hann býr yfir og hlutirnir sem hann hefur upplifað eru svo stórkostlegir. 

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren því boðskapur hennar um að lífið sé ekki alltaf gott og dauðinn sé ekki alltaf slæmur er svo sterkur. Það var algjörlega frábært að fara í Astrid Lindgren garðinn í Svíþjóð fyrir nokkrum árum og upplifa Nangijala með eldri börnunum. 

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Æi, hættu þessu væli...

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Til framhaldsskólaáranna. Þetta var svo áhyggjulaus og skemmtilegur tími. Maður gat líka verið ungur og vitlaus í friði án þess að það rataði á samfélagsmiðla að eilífu. Ef einhver náði óheppilegri mynd þá gat maður bara nappað ljósmyndinni og negatívunni með. Ekki það að ég hafi nokkru sinni haft ástæðu til að gera það… 

Hver væri titillinn á ævisögu þinni?  Mistök eru mannbætandi 

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu… til Hawaii 

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina:  Hlaupa maraþon, skrifa bækur og heimsækja áfram eitt nýtt land á hverju ári.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir