Rabb-a-babb 178: Gunnar Sandholt

Gunnar Sandholt. AÐSEND MYND
Gunnar Sandholt. AÐSEND MYND

Nafn: Gunnar Magnús Sandholt.
Árgangur: 1949.
Fjölskylduhagir: Einbúi, sjö barna faðir með hjálp annarra og rúmlega 10 barnabörn.
Búseta: Á Króknum.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Grænlendingur í 8. ættlið (ættmóðir Annika Tannika Fannika, hennar maður Sandholt kenndur við Sandhóla á Tjörnesi. (Atli Gunnar hefur logið því að Annika hafir verið sjórekinn selur á Tjörnesi). Ég er norskur að fjórðaparti gegnum föðurömmu, en annars ættaður frá Ísafirði, úr Dýrafirði og Eyjafirði, en foreldrar mínir báðir fæddir í Reykjavík hvar ég ólst upp í Laugarneshverfi. 
Starf / nám: Ég hef unnið við félagsþjónustu og barnavernd í hálfa öld, lærði til verka í Noregi og Svíþjóð.
Hvað er í deiglunni: Að njóta ellinnar.

Hvernig nemandi varstu?  Skrafhreyfinn og kvikur.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ég tók ferminguna alvarlega. Við fermdumst saman fjögur jafnaldra systkynabörn og fengum fallega fermingarveislu í Þjóðleikhúskjallanum. Þar var borinn fram ís með stjörnuljósum.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Prestur. Mér fannst erfitt að þegja í messum. Foreldrar mínir voru kirkjuræknir og við fórum í messu á hverjum sunnudegi.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Leggur, kjálki og skel í sveitinni að Skriðlesenni í Bitru á Ströndum.

Besti ilmurinn? Af mömmu, svo konum mínum og á síðari árum af barnabörnunum ungum. Svo er ég hrifinn af 4711 – Echt Kölnische Waßßer – ekta Kölnarvatni sem við reynum að eiga í morgunsundinu.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst?  Ég er makalaus sem stendur og sit hjá. En ég man.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Gæti hafa verið Bítlarnir, Revolver.

Hvernig slakarðu á?  Í morgunsundi með Húnahópnum, í messum og með barnabörnunum.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Sakna einskis.

Besta bíómyndin?  Datt fyrst í hug Hross í oss af því mér fannst hún svo fyndin.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á?  Langhlauparun Zapotek, af því Árni Stefáns sagði að ég hlypi eins og hann. Hann hafði bjálfalegasta hlaupstíl íþróttsögunnar

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?  Allt. Allt verst líka. Ég bý einn.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Hafragrautur handa Gunnu Ö. Grautur með kaneldufti, rjóma og Contreu. Eða kannski Puedro alla Romana, folaldapastaéttur, eða Geit handa Agnari. Uppskriftirnar hafa verið birtar í Feyki. 

Hættulegasta helgarnammið? Kaffi, konjakk og belgískar trufflur.

Hvernig er eggið best? Rétt rúmlega linsoðið.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég er almennt sáttur við sjálfan mig

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Mér þykir vænst um þá sem fara í taugarnar á mér, því þá fæ ég tilefni til að æsa mig. Eins og Björgvin sundbróður minn þegar við dettum í trúmálaumræðu. Þá elska ég hann mest.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  Allt sem þið viljið, að aðrir menn geri ykkur, það skuluð þið og þeim gera.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Held að það sé Sandholt afi, bakari, að deila út jólagjöfum á Laugaveginum.Ég var fjögurra ára þegar hann dó.

Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Njáll á brennudaginn. Ég hefði reynt að forða mér. En þá hefði Njála ekki verið skrifuð.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Biblían, endalaus fjársjóður og oft torskilin. 

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ja, ég meina.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Ef það mætti vera martröð væri fróðlegt að bjóða Hitler, Stalín og Trump – bara. 

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Af hverju ætti ég að gera það?

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Mætti ég prófa aftur, þetta var svo gaman.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
Það færi eftir því hvaðan ég færi – kannski á Sauðárkrók.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Lifa, lifa meira og lifa mest.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir