Rabb-a-babb 179: Þuríður Harpa

Þuríður Harpa á bak við skrifborðið. AÐSEND MYND
Þuríður Harpa á bak við skrifborðið. AÐSEND MYND

Nafn: Þuríður Harpa Sigurðardóttir.
Árgangur: Sá besti.
Fjölskylduhagir: Sambúð.
Búseta: Í Mekka sjálfstæðismanna.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Ég er dóttir Sigurðar H. Björnssonar frá Framnesi í Akrahreppi og Sigríðar I. Sigurbergsdóttur frá Svínafelli í Hornafirði. Alin upp í Nesjunum í Hornafirði með löngum stoppum í Varmahlíð.
Starf / nám: Formaður ÖBÍ, með ýmisskonar nám að baki s.s. BA í grafískri hönnun, diplóma á meistarastigi í fötlunarfræði og eitthvað fleira.
Hvað er í deiglunni: Að njóta ofurhita og sumars í Frakklandi.

Rabbið

Hvernig nemandi varstu?  Kærulaus en nokkuð til friðs og því sennilega ekki mjög eftirminnileg.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Var aldrei með það alveg á hreinu, ætlaði bara að gera eitthvað skemmtlegt. 

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Örugglega dúkka áður en ég lærði að lesa, eftir það var bókin best.

Besti ilmurinn? Ilmur af birki og blóðbergi eftir duglegan rigningarskúr á sólríkum sumardegi.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Love Over Gold (Dire Straits) og svo auðvitað Wham! Svaka blanda.

Hvernig slakarðu á? Góð tónlist, kertaljós og eitthvað gott að lesa – klikkar ekki.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Lövander fjölskyldan tekur þann sess einu sinni í viku.

Besta bíómyndin? Intouchable, sem er frönsk mynd byggð á ævi manns sem lamaðist í slysi. Mynd sem vekur mann til umhugsunar og er bæði sprenghlægileg og dapurleg en mest virkilega góð mynd. Mæli með henni

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Ég fylgist nú ekkert sérstaklega með íþróttum en Arna Sigríður Albertsdóttir, sem stefnir á að keppa á handhjóli á Ólympíuleikum fatlaðra  í Tókýó 2020 finnst mér afbragðis íþróttamaður.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Tuða, það er algjörlega mín sérgrein.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Já, nú vandast málið, get sennilega ekki státað af snilld, en er ótrúlega góð í að drasla út og skapa mikla óreiðu þegar ég þarf að elda.

Hættulegasta helgarnammið? Súkkulaði- allt sem inniheldur súkkulaði.

Hvernig er eggið best? Stundum linsoðið, stundum harðsoðið og stundum steikt, bara ekki með hráa hvítu.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Tuð og óþolinmæði.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Hroki, yfirgangur og neikvæðni.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? „Lifðu sérhvern dag eins og hann sé þinn síðasti“ mér þykir þetta góð áminning en fer alltof sjaldan eftir henni sjálf.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Standandi milli framsætanna í Skátinum á ferðalagi með foreldrum mínum sennilega í kringum þriggja ára aldurinn

Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Það væri áhugavert að vakna í líkama Leonardo Da Vinci. Ég myndi vinna að einhverju stórkostlegu sköpunarverki. 

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ég get ekki gert upp á milli margra uppáhaldsbóka, t.d. er Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur ein af þeim og höfundurinn einn af mínum uppáhalds. Svo las ég nýverið bókina Hver drap föður minn eftir  Édouard Louis og er dáldið upptekin af því að vera enn að melta bókina, sem mér finnst mjög góð.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Það kemur dagur eftir þennan dag, góður frasi og aldrei ofnotaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir