Rabb-a-babb 207: Helga Margrét

Helga Margrét á góðum degi. AÐSEND MTND
Helga Margrét á góðum degi. AÐSEND MTND

Nafn: Helga Margrét Þorsteinsdóttir.
Árgangur: 1991.
Fjölskylduhagir: Trúlofuð Mána Atlasyni lögmanni og eigum við saman Atla Stein sem er 17 mánaða orkubolti.
Búseta: 108 Reykjavík.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Dóttir Aðalheiðar Böðvarsdóttur og Þorsteins Sigurjónssonar, alin upp á Reykjum 2 í Hrútafirði.
Starf / nám: Læknir, akkúrat þessa stundina starfa ég á kvenna- og fæðingadeild Landspítalans.
Hvað er í deiglunni: Uppeldi sonar míns, læknisstarfið og val á sérnámi, heimilishaldið og auðvitað lífið með Covid-19.

Rabbið:

Hvernig nemandi varstu? Afskaplega samviskusöm, metnaðarfull og stýrðist af keppnisskapi á því sviði eins og á flestum öðrum sviðum.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ég fermdist daginn fyrir páskadag og fyrir vikið fannst mér nauðsynlegt að fermingarskórnir væru skærgulir. Fannst það mjög smart þá.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Mig langaði alltaf að vinna í apótekinu á Hvammstanga eða í gróðurhúsinu hjá Huldu frænku.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ég lék mér mikið í barbie og kubbó. En svo fannst mér líka mjög gaman að drullumalla og leika mér í beinabúinu.

Besti ilmurinn? Erfitt að gera upp á milli ilmsins af drengnum mínum, nýslegins gras og ilmsins af rjúkandi heitum kaffibolla.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Ætli ég hafi ekki séð hann fyrst í sjónvarpinu þar sem hann tók þátt í hinum stórskemmtilega sjónvarpsþætti Útsvar fyrir hönd Akraness….og tapaði.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Á þeim tíma var ég flutt til Reykjavíkur þar sem útvarpsstöðin FM957 náðist ólíkt því sem gerðist í sveitinni. Fyrir vikið hlustaði ég aðallega á tónlist sem spiluð var á þeirri útvarpsstöð.

Hvernig slakarðu á? Í heitum potti eftir líkamleg átök eða einfaldlega í góðum félagsskap yfir góðum mat og góðu víni.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég missi helst ekki af íslenskum þáttaröðum á borð við Ófærð og núna Verbúð. Svo finnst mér líka Innlit með Sindra og Draumaheimilið skemmtilegir þættir.

Besta bíómyndin? Moulin Rouge hefur lengi verið uppáhalds bíómyndin mín, góð tónlist og áhrifaríkur söguþráður.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Carolinu Kluft, það mun aldrei breytast. Besta sjöþrautarkona fyrr og síðar að mínu mati.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Hafragrautinn á morgnana

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég er mjög góð í að gera gott salat og jógúrtsósu.

Hættulegasta helgarnammið? Súkkulaðirúsínur og salthnetur.

Hvernig er eggið best? Hálfsoðið með grófu salti.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Eirðarleysið innra með mér.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Slugs, slór, hangs og óstundvísi.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Gerðu fleiri hluti sem fá þig til að gleyma símanum þínum og Aldrei missa gleðina.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég er nokkuð viss um að ég muni eftir því þegar ég var enn á brjósti og systkini mín voru að stríða mér yfir því, enda að nálgast 4 ára aldurinn.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Uppáhalds bækurnar mínar eru Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur og Sossa sönn hetja eftir Magneu frá Kleifum. Annars les ég mest af spennusögum og þar finnst mér Yrsa Sigurðardóttir standa fremst í flokki.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Akkúrat og einmitt.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Ég væri ótrúlega til í að bjóða vinkonum mínum úr grunnskóla, Lóu Dís, Kristrúnu Kristjáns og Elísabetu Sif í mat. Svo alltof langt síðan við höfum hist allar saman og væri svo gaman að rifja upp gamla góða tíma. Held það yrði mikið hlegið.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ætli ég myndi ekki fara aftur til þess tíma þegar ég var enn að æfa og keppa í frjálsum íþróttum. Ég myndi hitta sjálfa mig fyrir og segja mér að slappa aðeins af og taka lífinu ekki svona alvarlega. Held að þannig hefði ég notið mín betur.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Áfram gakk.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Balí, dásamlegur staður.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina:Hlaupa maraþon, fara í skíðaferð í Alpana og eignast fleiri börn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir