Rabb-a-babb 211: Ásdís Ýr

Ásdís Ýr á Spákonufelli ofan Skagastrandar. MYND AÐSEND
Ásdís Ýr á Spákonufelli ofan Skagastrandar. MYND AÐSEND

Nafn: Ásdís Ýr Arnardóttir.
Árgangur: Afar góður, 1981.
Fjölskylduhagir: Einstök, móðir tveggja dætra. Maríu Rún 21 árs og Kristrúnar Ýr 7 ára.
Búseta: Ég bý á Blönduósi, í Húnabyggð.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er barnabarn Manna og Maju á Vindhæli, dóttir Önnu og Össa í Vélsmiðjunni sálugu. Ég lærði að lesa og hjóla á Blönduósi, tók út gelgjuna í Mosfellsbæ og varð fullorðin í Vesturbæ Reykjavíkur en ákvað svo um þrítugt að flytja aftur á Norðurlandið.
Starf / nám: Með Georg Bjarnfreðarson sem fyrirmynd hef ég safnað nokkrum háskólagráðum. Í dag starfa ég sem grunnskólakennari í Höfðaskóla á Skagaströnd og sem sjálfstætt starfandi fjölskyldufræðingur.
Hvað er í deiglunni: Njóta sumarsins (ef það kemur einn daginn), ferðast um landið og skoða náttúruna í félagi við fjölskyldu og vini.

Rabbið:

Hvernig nemandi varstu? Innan veggja skólans var ég yfirleitt afar stillt og prúð, fyrir utan nokkur prakkarastrik í Gaggó Mos.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Efst í minningunni er hversu hallærislegir skórnir mínir voru við fermingarkirtilinn. Ég var bæði hávaxin miðað við fermingarsystkinin og stórfætt. Mér fannst ég alveg eins geta verið á skíðum í fermingarathöfninni.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Gullsmiður og planið var að læra í Finnlandi.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Barbie kom sterk inn.

Besti ilmurinn? Lyktin af birkitrjám, eftir rigningu.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Síðasta maka sá ég á balli en týndi honum svo. Næsta og tilvonandi maka mun ég vonandi finna á fjöllum eða í einhverju skemmtilegu matarboði.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Skítamórall var það allra heitasta á íslenskunni en OASIS, Live, Police og fleiri útlensk bönd fengu stundum að heyrast.

Hvernig slakarðu á? Reima á mig gönguskóna, fer út að ganga og hlusta á kyrrðina í náttúrunni.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég horfi afar sjaldan á línulega dagskrá í sjónvarpi en ef ég horfi á fréttir þá vil ég líka sjá veðrið.

Besta bíómyndin? Ég man aldrei hvað bíómyndirnar heita sem ég horfi á. Passlega væmnar og smá rómantískar, þá líklega fíla ég þær.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Vilborgu Örnu, fjallakonu með meiru.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Samkeppnin er afar ójöfn, búandi með barni og hundi, svo ég segi pass

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Túnfisksalatið mitt er himneskt. Börnin myndu segja lasanga.

Hættulegasta helgarnammið? Ítalskt rauðvín.

Hvernig er eggið best? Skramblað, á pönnuköku með beikoni og sýrópi.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Óþolinmæðin.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Afskiptasemi og illgirni.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Það er alltaf betra að vera seinn og sætur en fljótur og ljótur.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Hver sé elst er ég ekki viss um en ein sterkasta minningin er þegar ég og frænka mín stálumst upp á Hallárdal til að sækja barnahestinn á Vindhæli. Við klæddum okkur upp í reiðföt af eldri frænku okkar, ég fór í hvítar reiðbuxur og há reiðstígvel. Verandi 7-8 ára pjakkar þá gleymdum við hestinum um stund og fórum að leika okkur í mýrinni og komum auga á trampólín þess tíma, kallast yfirleitt dý. Það endaði ekki betur en svo að ég sökk upp að mitti, og frænka mín, sem var afar lítil og smágerð, mátti draga mig uppúr drullunni. Hvort amma náði að þrífa mýrarauðan úr reiðfötunum veit ég ekki og ég man ekki hvort við fórum eitthvað á hestbak. En frænka bjargaði mér úr drullunni.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? . Ég væri til í að vera Michelle Obama, fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna. Ég myndi eyða deginum á Íslandi og vera með fyrirlestur í Hörpu fyrir ungar konur.

Hver er uppáhalds bókin þín? Ég les alltof lítið en síðasta bók sem ég las var góð, Djúpið eftir Benný Sif Ísleifsdóttur.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ollræd.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Góð spurning, það er erfitt að velja. Stella, Halla og Anna Margrét, gömlu vinnufélagarnir úr HI yrðu fyrir valinu. Það yrði án efa skemmtilegt reunion.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi fara aftur til háskólaáranna þegar ég var í grunnnámi og fara út í framhaldsnám

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Betra er að vera yfirgefin en undirgefin.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu… til Ástralíu.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: 1. Keyra þvert yfir Bandaríkin á húsbíl 2. Ganga í Ölpunum 3. Fara til Bali á heilsuhótel.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir