rabb-a-babb 27: Ársæll sveitarstjóri

Nafn: Ársæll Guðmundsson
.
Árgangur: 1961
.
Fjölskylduhagir: Kona og dætur.
Starf / nám: Sveitarstjóri með kennarapróf og meistaragráðu í félagsvísindum
.
Bifreið: Pajero árg. 1999.
Hestöfl: Búa flest í mótorhjólinu.
Hvað er í deiglunni: Undirbúningur fyrir komandi átök þe. Reykjavíkurmaraþon.

Hvernig hefurðu það? Fínt.  Vaknaði lifandi og verkjalaus.
Hvernig nemandi varstu? Sat aftast og sagði "jæja" þegar lok kennslustunda nálgaðist.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Stóru breiðu kúluskórnir sem gægðust undan kyrtlinum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Læknir en þegar til kom kunnu kennararnir í læknadeildinni ekki að meta prófsvörin mín.
Hvað hræðistu mest? Að hugsjónir manna séu eingöngu farnar að mótast af græðgi.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? Kaya með Bob Marley and the Wailers og hún stendur fyllilega fyrir sínu enn í dag.
Hvaða lag ertu líklegastur til að syngja í Kareókí? Ég söng frumsamið ástarljóð til konu minnar þegar hún varð fertug, við lag Elvis Presley, Wise man says.  Miðað við frammistöðu mína þar, er ljóst að ég mun aldrei syngja í Kareókí.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Evrovision og Idol-stjörnuleit. Eflaust vegna þess að mér er gersamlega fyrirmunað að geta sungið.
Besta bíómyndin? Rocky Horror Picture Show og það er eina myndin sem ég hef séð oftar en einu sinni í bíó.
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow? Brúsi stendur alltaf fyrir sínu.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? Pepsi Max, sviðasulta og lifrarpylsa.
Hvað er í morgunmatinn? Sportþrenna frá Lýsi, vatn, mjólkurmatur frá KS og Kelloggs Special K.
Uppáhalds málsháttur? Því hærra sem apinn klífur því betur sést í rassinn á honum - kom oft upp í hugann sl. ár.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Bangsímon. Heimsspeki af bestu gerð.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? SS pylsur, Vilko kakósúpa og þegar ég keypti uppþvottavélina.
Hver er uppáhalds bókin þín? Ljóðabókin "Undir ljúfum lögum" eftir Gest, gefin út 1918.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... ... með spúsu mína og dætur til Colorado á skíði.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Skopskynið þegar aðrir skilja það ekki.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Yfirlæti, dramb og húmorsleysi.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? Crystal Palace.  Maður veit aldrei í hvaða deild þeir spila.
Hvaða íþróttamanni / dómara hefurðu mestar mætur á? Árna Stefánssyni - hann á skilið að fá Fálkaorðuna fyrir að styrkja sjálfsímynd og líkamlegt ástand svo margra Skagfirðinga.
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? Heim í Búðardal - það er svo karlmannalega íslenskt.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? Martin L King vegna þess að hann hafði trú, hugsjón og málsstað sem hann barðist fyrir og breytti miklu fyrir mannlífið.  Af íslenskum persónum er það Guðmundur Björnson, fyrrv. landlæknir, alþingismaður, bæjarfulltrúi í Reykjavík og skáld.
Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Góða skó, eldspýtur og óskastein.
Hvað er best í heimi? Heima er best.
Hvað einkennir helst íbúa í Skagafirði? Lífsgleði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir