rabb-a-babb 38: Kjartan H. Grét

Nafn: Kjartan Hallur Grétarsson.
Árgangur: 1970.
Fjölskylduhagir: Giftur, 2,25 barna faðir.
Starf / nám: Íslenskufræðingur, starfa sem villupúki á skrifstofu Alþingis.

Bifreið: Konan á Opel en ég á Ecco-skó.
Hestöfl: Mér er það ekki ljóst en bíllinn er grænn.
Hvað er í deiglunni: Umræða um vatnalög.

Hvernig hefurðu það? 
Gott eftir atvikum.
Hvernig nemandi varstu? 
Kurteis og yfirleitt vel undirbúinn.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? 
Ég man eftir flugu í kirkjuglugganum, stórri feitri fiskiflugu sem renndi sér niður rúðuna í vorsól; ferðasegulbandstæki, Sharp frá Nonna frænda;  svo man ég auðvitað eftir honum Hvata, Sighvati presti sem var afbragðsprestur.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Fyrst langaði mig annaðhvort að verða Geir Hallgrímsson eða indíáni en síðan fór mig að langa að verða listamaður og drukkinn keðjureykingamaður eða kennari með olnbogabætur.
Hvað hræðistu mest? 
Fermingarveislur.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? 
Fyrsta sem ég keypti prívat og persónulega var The Crossing með Big Country en ein sú fyrsta markverða var líklega Smiths-platan The Queen is Dead.
Hvaða lag ertu líklegastur til að syngja í Kareókí? 
Orð öskursins heitir eitt skemmtilegt lag með pönkrokksveitinni Sogblettum sem ég fengist hugsanlega til að raula með.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? 
Breskum fræðslumyndum um skordýr og menn.
Besta bíómyndin?  
Tampopo heitir sú eðalmynd, japönsk og sýnd á RÚV eitt kvöld síðla um áttatuginn.
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow? 
Ég hlýt að velja Georg fyrir að hætta á Bráðavaktinni.  Brúsi er bara venjulegur jepplingur. Gnýhildur ber líka af Júllu.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? 
Hnetur og skrifblokkir.
Hvað er í morgunmatinn? 
Hafragrautur eða seríós.
Uppáhalds málsháttur?  
Svo skal böl bæta að bíða aðeins, segi ég oft með sjálfum mér.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? 
Iron-man var tragísk hetja en Grettir er fyndnastur.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? 
Karrí-rjóðar steinbítskinnar.
Hver er uppáhalds bókin þín? 
Íslensk Orðabók.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... 
 til Pragar á pöbbarölt.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? 
Tíð og langvarandi letiköst.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Óþarfa framkvæmdagleði.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? 
Arsenal á í mér öll blóðkornin, bæði rauð og hvít. Ég valdi það vegna þess að æskuvinur minn úr Óslandshlíðinni, Bjarki í Þúfum, hélt með Arsenal.
Hvaða íþróttamanni / dómara hefurðu mestar mætur á? 
Þessa dagana er Kolo Toure minn uppáhalds íþróttamaður en af dómurum veit ég fátt, get eiginlega ekki nefnt neinn nema sköllótta dómarann með augun.
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? 
Æ, best væri að fá þetta stappað.  Mashup, held ég að það sé kallað. Heim í Diskódal eða eitthvað.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? 
Gæti trúað að Adolf Hitler hafi þar mest vægi.
Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? 
Skrifblokk, teikniblokk og tunnu af bleki.
Hvað er best í heimi? 
Góðar og reglulegar hægðir, kannski.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir