rabb-a-babb 49: Siva

Nafn: Sigurveig Dögg Þormóðsdóttir.
Árgangur: 1972.
Fjölskylduhagir: Bý með Jóhanni Sigmarssyni.
Starf / nám: Sjúkraþjálfari.
Bifreið: Það er hann Balli minn, árgerð 1996, gegnir ýmsum hlutverkum, allt frá drossíu upp í vöruflutningabíl.
Hestöfl: Jájá örugglega.
Hvað er í deiglunni: Gosi, Gosi og aftur Gosi, frumsýning á laugardaginn kl. 17:00 í Bifröst og allt á fullu við að redda því sem þarf að redda fyrir stóra leiksýningu.

Hvernig hefurðu það? 
Bara svona ljómandi fínt, þakka þér fyrir.
Hvernig nemandi varstu? 
Ja, það eru nú ekki mörg ár síðan pabbi sýndi mér umsögn frá einum kennaranum mínum síðan í 9. bekk, mig minnir að þar hafi staðið að ég væri draumanemandi ... ætli ég hafi ekki sofið svona mikið í tímum hjá honum blessuðum.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?  
Einn frændi minn og jafnaldri vildi ekki kyssa mig til hamingju svo ég kyssti hann og sprengdi á honum vörina um leið.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Mér finnst ég ekki vera orðin stór enn, ég á eftir að gera svo mikið.  T.d. finna upp beinlausan fisk, pott sem sýður ekki upp úr, pillu við vefjagigt og margt fleira.  Annars ætlaði ég að verða smiður alveg þangað til ég ákvað að verða leiðsögumaður, en hætti við það þegar mig langaði að læra læknisfræði og hætti við það þegar ég sá að sjúkraþjálfunin ætti líklega miklu betur við mig.
Hvað hræðistu mest? 
Að einn daginn verði hætt að framleiða Nóa-kropp.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? 
Sú fyrsta var Duran Duran ? Arena.  Keypti hana svo aftur á geisladiski í fyrra og komst að því að Simon er svo hræðilega falskur á henni að ég get ekki hlustað á hana.  En hún er rosalega góð í minningunni.
Hvaða lag ertu líklegastur til að syngja í Kareókí? 
I will survive, ekki spurning.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)?  
Horfi nú helst aldrei á fréttir en mátti alls ekki missa af Magna í Rockstar supernova. Gilmore girls eru skemmtilegar og nördarnir líka en ég má alveg missa af einum og einum þætti.  Límist líka niður yfir dýralífsþáttum en veit sjaldan af þeim fyrirfram.
Besta bíómyndin? 
Úff, erfitt val. Sódóma Reykjavík og Með allt á hreinu eru náttúrulega klassískir gullmolar.  Þær sem ég hef svo horft oftast á á DVD eru líklega Shrek 1 og 2 (ath. á ekki börn og horfi því á þær sjálfviljug), Pirates of the Carrabian og Allt um móður mína. Og Lord of the Rings. Og Pulp fiction.  Og stuttmyndin Síðasti bærinn.  Og ...
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow?  
Brúsi minn og Angelina.  Þótt Goggi sé sætur finnst mér hann alltaf vera eitthvað svo rolulegur og Gwynet fýkur nú bara burt með næstu vindhviðu.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? 
Nóa-kropp, geisladiskar og góðar skáldsögur.
Hvað er í morgunmatinn? 
Ab-mjólk, Havre fras, bananar og te úr blóðbergsblöndu.
Uppáhalds málsháttur? 
Ánægja er auði betri.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín?  
Uhh líklega Shrek, eða nei, einu sinni sá ég teiknimyndabækur sem voru sænskar og hétu Ensama mamman, dásamleg einstæð móðir sem gat fengið brjálæðiskast útaf brauðmylsnu á bekknum, algjör snilld.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? 
Kjötsúpan sem ég gerði í síðustu viku, algjört æði.  Og súkkulaðilímónuostakakan hennar Nigellu.
Hver er uppáhalds bókin þín?  
Úff þær eru enn fleiri en myndirnar.  Mér hefur þó líklega lengst þótt vænt um söguna af Dimmalimm.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... 
...til Nepal, eða Chile, eða Oslóar eða Grímseyjar.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? 
Letiköstin.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Þeirra letiköst, og svo þegar fólk er ekki hreinskilið.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju?  
Æji Jói í hvaða liði er Hemmi minn aftur?  Nú bara af því Hemmi er flottastur!
Hvaða íþróttamanni / dómara hefurðu mestar mætur á? 
Kristínu Rós Hálkonardóttur sunddrottningu og Þorsteini Ingvarssyni upprennandi frjálsíþróttastjörnu. Sakna Collina líka aðeins.
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó?  
Diskó, ekki spurning.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? 
Tjah, ég væri nú ekki hér hefði foreldra minna ekki notið við svo ég segi Ingigerður Kristín Jónsdóttir og Þormóður Ásvaldsson.
Ef þú ættir að dvelja alein á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? 
Bækur, Jóa og sólarvörn. Ég meina Jóa, sólarvörn og bækur. Eða Jói er nú samt kannski ekki hlutur...
Hvað er best í heimi? 
Knús.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir