rabb-a-babb 50: Séra Fjölnir

Nafn: Fjölnir Ásbjörnsson.
Árgangur: 1973.
Fjölskylduhagir: Giftur henni Heiðrúnu minni Tryggvadóttur og saman eigum við strákana Tryggva, 6 ára og Egil, 4 ára.
Starf / nám: Guðfræðingur með kennsluréttindi, starfandi sem sóknarprestur í Skagastrandarprestakalli.
Bifreið: Hyandai Terracan.
Hestöfl: Hellingur.
Hvað er í deiglunni: Skipulagning á helgihaldi um jólin og svo stórskemmtilegt predikunarnámskeið í Skálholti.

Hvernig hefurðu það? Gott, reyndar mjög gott.
Hvernig nemandi varstu? Ljúfur, góður og námsfús (enda kennarabarn, ekki annað hægt).
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Að hafa tekið þá stóru og gifturíku ákvörðun að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Skipstjóri, en hvenær er maður stór?  Er nefnilega búinn að hækka um 2 cm á síðustu 10 árum.
Hvað hræðistu mest? Mannvonsku og sársauka.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? Fyrsta platan var Elvis syngur jólalög, frábær plata.  Sú besta væri líklega Sögur af landi með Bubba.
Hvaða lag ertu líklegastur til að syngja í Kareókí? Úff, þau eru svo mörg. Stand by Me, klikkar aldrei. Green, Green Grass of Home kemur líka sterkt inn og þá er auðvitað hugsað heim í Skagafjörðinn á meðan.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Skemmtilegum fræðsluþáttum.
Besta bíómyndin? The Empire Strikes Back.
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow? Ekkert þeirra er í neinu uppáhaldi og engin leið að gera upp á milli þeirra.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? Ýmsar græjur sem hafa takmarkað notagildi þegar heim er komið.
Hvað er í morgunmatinn? Hollusta a la Danski kúrinn.
Uppáhalds málsháttur? Þeir eru margir en það er a.m.k. ekki sá sem konan mín fékk í páskaegginu sínu rétt fyrir giftingu: Lengi stendur mannsefni til bóta.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Tinni.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Fiskisúpan, sem hefur verið í þróun árum saman og verður bara betri og betri.
Hver er uppáhalds bókin þín? Biblían.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... ...til Mexico City.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Gallarnir.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Ég læt annað fólk lítið fara í taugarnar á mér, munum bara að koma fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? Hm, enski boltinn hvað?  Hefði fyrir nokkrum dögum sagt Chelsea út af Eiði Smára en frétti fyrir nokkrum dögum að hann væri kominn til Barcelona svo ...
Hvaða íþróttamanni / dómara hefurðu mestar mætur á? Að sjálfsögðu systkinum mínum, Dúfu Dröfn í fótbolta og körfubolta og Gauta í frjálsum.
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? Erfitt val en ætli ég verði ekki að segja Heim í Búðardal á virkum dögum og Diskó Friskó um helgar.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? Erfitt val, allar persónur eru mikilvægar á einn eða annan hátt.
Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Úff, þrjá hluti. Hníf líklega, eldspýtur og veiðistöng.  Kannski búinn að horfa á of mikið af Lost í sjónvarpinu.
Hvað er best í heimi? Trúin, lífið og fjölskyldan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir