rabb-a-babb 55: Jóna Fanney

Nafn: Jóna Fanney Svavarsdóttir.
Árgangur: 1974.
Fjölskylduhagir: Maðurinn minn heitir Erlendur Þór Elvarsson, ég á eina dóttur og þrjú fósturbörn, tvo hunda; einn þýskan fjárhund og einn skoskan, og fullt af hrossum sem ég bind miklar vonir við. Á einhver grís handa mér? Mig hefur alltaf langað í einn svona gælugrís!
Starf / nám: söngkona og söngkennari.
Bifreið: Ford 250, það þarf að draga hestakerruna út um víðan völl á mínu heimili!
Hestöfl: 350.
Hvað er í deiglunni: Það er verið að skipuleggja tónleika sumarsins sem verða víða um land, Blönduós, Sauðárkrókur vonandi og Akureyri, svo liggur leiðin til Ítalíu að syngja. Svo er eiginlega aðalmálið að skipuleggja hesta-ferðir sumarsins, en allir meðlimir fjölskyldunnar háir sem lágir taka þátt í hestamennskunni af miklum eldmóð og elska sveitina og hestana sína.

Hvernig hefurðu það? Alveg afbragðsgott.
Hvernig nemandi varstu? Ákaflega samviskusöm og þæg, það var meira að segja kvartað yfir því við foreldra mína, það skapaði víst svo mikinn “kontrast” í bekknum!
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Þegar presturinn kláraði vínið, það var alveg gúlsopi eftir í kaleiknum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Söngkona og bóndi
Hvað hræðist þú mest? Hrun íslensks landbúnaðar og frjálsan innflutning á erfðabreyttum og kreutsfeltjakobs vörum og fugla-flensueggjum frá Evrópu, veit  þessi þjóð ekki hvernig fæða er ræktuð og meðhöndluð í öðrum löndum, bjakk!!! Nei, ég fer til útlanda og get ekki beðið eftir að komast heim í sunnudagslærið, skyr og Moggann!
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? Vá, Glymskrattinn safnplata frá sautjánhundruð og súrkál, já eða Grýlurnar Mávastellið.
Hvaða lag ertu líklegust til að syngja í Kareókí? Love me tender með Presley.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Látum okkur nú sjá, Boston Legal og nú er verið að fylgjast með X Factor.
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow? Hvorki Brús né Georg en Angelina Jolie er alveg frábær og svo er hún með honum þarna hvað heitir hann?
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? Nammi.
Hvað er í morgunmatinn? Ristað brauð með osti appelsínusafi, hafragrautur og rammsterkt kaffi.
Uppáhalds málsháttur? Margur er knár þó hann sé smár.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Nú sunnudagslærið og kjötsúpa.
Hver er uppáhalds bókin þín? Ég játa það að ég les ekki mikið en sennilega er það einhver af bókunum mínum um hesta sem ratar oftast í hendurnar á mér.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Ítalíu, voða “kjút” land og ef ég væri á Ítalíu færi ég til Íslands.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Óákveðni.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Frekja.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? Everton af því að pabbi hélt með Manchester og bræður mínir með Liverpool, svo er blár fallegri litur.
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? Diskó Friskó.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? Mamma, alltaf svo sæt og góð, hvað gerði maður án mömmu.
Hvað er best í heimi? Að eiga góða fjölskyldu og vini, geta unnið við áhugamálið sitt og komist á hestbak!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir