Rabb-a-babb 213: Auður Björk

Auður og fjölskylda í Rauðfeldargjá á Snæfellsnesi. MYND AÐSEND
Auður og fjölskylda í Rauðfeldargjá á Snæfellsnesi. MYND AÐSEND

NAFN: Auður Björk Birgisdóttir.
ÁRGANGUR: 1984.
FJÖLSKYLDUHAGIR: Þriggja barna móðir og eiginkona. Er gift Rúnari Páli Hreinssyni frá Grindum, saman eigum við þrjú börn þau Bjarkey Dalrós 14 ára, Sigurrós Viðju 8 ára og Birgi Smára Dalmann 4ra ára.
BÚSETA: Búum á Grindum í Deildardal með kindur og hross.
HVERRA MANNA ERTU OG HVAR UPP ALIN: Ég er alin upp á Sauðárkróki en fluttist yfir um og bý núna austan Vatna í Skagafirði fyrir ofan Hofsós á Grindum í Deildardal, sem almennt er talinn fallegasti dalur landsins. Foreldrar mínir eru Birgir Freyr Þorleifsson frá Vogum og Júlía Linda Sverrisdóttir frá Siglufirði. Ég á svo tvö systkini, Guðrúnu Sonju og Hólmar Björn.
STARF / NÁM: Tja… ég er klippari á Rúningsstofunni minni á Sauðárkróki, sundlaugarvörður í falleg-ustu laug landsins á Hofsósi, grunnskólakennari á miðstigi í Grunnskólanum austan Vatna. Sit sem aðalmaður í atvinnu-, menningar og kynningarnefnd hjá Skagafirði. Er í námi við HA á Akureyri í Stjórnun og forystu í lærdómssamfélagi. Mér leiðist aldrei!
HVAÐ ER Í DEIGLUNNI: Í deiglunni er að byggja 300 fermetra fjárhús fyrir veturinn… (svona ef veðrið verður til friðs).

Hvernig nemandi varstu? Ég var kannski ekki sterkasti nemandinn, var í miðferð í Árskóla í unglingadeild, þá var getuskipt. En ég var alltaf glaður nemandi sem talaði mikið. Það hefur lítið breyst nema óhætt er að segja að ég sé betri nemandi í dag en þá.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Man ekkert ….

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Er svo sem ekki orðin stór ennþá en planið var að verða hárgreiðslukona eins og mamma eða snyrtifræðingur. Kláraði svo háriðnmeistarann. Ég er enn í námi svo það er aldrei að vita hvað ég verð í framtíðinni.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ég var alltaf í mömmó. Elskaði dúkkurnar mínar og að klæða þær í ungbarnaföt af mér. Er alin upp í Víðimýrinni í blokkinni og minningarnar eru margar með öllum krökkunum þar.

Besti ilmurinn? Elska Tease frá Victoria Secret svo er fjárhúsalyktin ágæt með.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Hann vill nú meina að ég hafi fyrst séð hann þegar ég var 12 ára í Unadal, þar sat ég á réttarvegg og sagði: „Oj, ljótur hestur…“ Þá var hann mættur í réttina, ægilega glaður drengur, að sækja hestinn sinn…. Hann stimplaði mig sem leiðinda Króksara. Kynntumst svo í bæjarvinnunni á Hofsósi árið 2000 og höfum verið saman síðan.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég hlustaði mest á Maus. Alveg magnaðir textar.

Hvernig slakarðu á? Ligg uppi í sófa með góða þætti og börnin að hnoðast ofan á mér.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu fyrir utan fréttir? Missi reyndar af öllum fréttatímum, horfi ekki á línulega dagskrá, en elska The Block, Greys Anatomy, 911, Queen of the South.

Besta bíómyndin? Á enga bestu bíómynd en þykir mjög gaman að horfa á Saturday Night Fever, Footloose, Grease og einhverjar svona gamlar myndir.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Nú Bjarna Jónasar hestamanni. Eðal hestamaður sá. Fylgist ekki með íþróttum nema þá helst hestaíþróttum í Skagafirði.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Elda mat úr engu. Opna bara ísskápinn og töfra fram eitthvað magnað.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég baka bestu skonsur í heimi. Mér finnst þær svo bestar með smjöri, osti og apríkósumarmelaði.

Hættulegasta helgarnammið? Allt súkkulaði með einhverju krönsí inni í.

Hvernig er eggið best? Spælt egg, báðum megin með salti og pipar.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Sennilega hvað ég er óstundvís. Er alltaf á síðustu mínútunum og á hlaupum.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Afskiptasemi eða umtal um aðra sem skiptir það engu máli.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Vakna sem Pútín og enda stríðið í Úkraínu.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Hahaha. „Ég er bara svo góð í mörgu.“ Við vinkonurnar grínumst mikið með þennan frasa saman – svo er spurning hvort það er eitthvað til í því eða hvað?

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? 
Það væri gaman að bjóða Svandísi Svavars landbúnaðarráðherra, leggja henni línurnar fyrir framtíð sauðfjárbúskapar hún gæti tekið Kötu Jak með sér… svo væri ekki leiðinlegt ef Stebbi Jak myndi halda uppi stuðinu á meðan. Ég myndi svo að sjálfsögðu hafa hægeldaðan lambaframpart í matinn með öllu tilheyrandi.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég færi sennilega bara aftur í 10.bekk. Djöfull þótti mér það gaman… sko fyrir utan lærdóminn.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Auður djúpa.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Miðað við verðrið núna og rauða viðvörun um land allt, myndi ég vilja fara til Havaí.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Ég er nú bara 38 ára og ekki farin að hugsa svo langt. Stefni á að verða mjög gömul og fjörug. En miðað við það þá væri flott að bæta þjónustu aldraðra í Skagafirði óháð búsetu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir