Rabb-a-babb 218: Pétur Ara

Pétur lætur hendur standa fram úr ermum. AÐSEND MYND
Pétur lætur hendur standa fram úr ermum. AÐSEND MYND

Nú er það Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, sem hleypir lesendum Feykis að sínum innsta kjarna og tekst á við Rabb-a-babbið. Pétur er fæddur á því herrans ári 1970, er giftur og á þrjú börn og tvö barnabörn að auki. Hann segist búa á Blönduósi – miðju alheimsins!

„Ég er ættaður frá Blönduósi í báðar ættir og upp um allar sveitir í Húnabyggð og t.d. til Skagafjarðar ef maður bakkar aðeins,“ segir hann. Pétur er rekstrarverkfræðingur en í deiglunni hjá sveitarstjóranum er að búa til öflugt og skemmtilegt samfélag í Húnabyggð.

Hvernig nemandi varstu? Átti alltaf mjög auðvelt með að læra og var alltaf í keppni framan af en seinna gerði ég yfirleitt bara það sem þurfti því ég var „upptekinn” í öðrum verkefnum. Þegar ég fann hvað mig langaði til að læra þá stoppaði mig ekkert.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Að vera að mér fannst stór sál í mjög litlum líkama.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Það var allt þetta klassíska plús að verða bóndi, atvinnumaður í íþróttum eða rokkstjarna. Held að fornleifafræði, náttúrulífsfræði og/eða sagnfræði hafi einnig komið til greina.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Var algjör alæta á bækur og las endalaust af bókum og hlustaði einnig mikið á hljómplötur. Svo voru Matchbox-bílar og tindátar líka mikið teknir.

Besti ilmurinn? Af konunni minni.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Það var nú sennilega í Reykjavík en fyrsta skiptið sem við hittumst og töluðum saman sem markaði upphafið að því sem varð okkar hjónaband var á hóteli á Sauðárkróki af öllum stöðum!

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Þarna er ég búinn að vera nokkur ár í massívu Smiths ferðalagi en var alltaf með hrátt rokk (pönk) líka á fóninum. Sykurmolarnir voru fyrirferðamiklir og Public Enemy var algjör negla.

Hvernig slakarðu á? Ef ég þarf að einbeita mér þá þungt rokk en ef ég þarf að vera heiladauður þá sjónvarp. Jarðtengingin gerist síðan í gegnum náttúruna, úti að ganga, í fjallgöngu, á skíðum, við veiðar eða út í sveit.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Gilli Malli er fastur liður og Berglind Festival að sjálfsögðu í sérstöku uppáhaldi ;o) Spennandi íþróttaviðburðir eru líka ofarlega á listanum.

Besta bíómyndin? Wild at Heart, fór á frumsýninguna í Háskólabíó með vini mínum (og frú Vigdísi) og þessi mynd hafði gríðarleg áhrif á mig. Annars er þetta ómöguleg spurning sem hefur 1000 svör.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Það eru vinir mínir í IFC sem eru sennilega mestu fjölþrautarmenn sem uppi hafa verið.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Að slappa af.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Að sjá um fráganginn en annars er ég mættur við pottana í villtri bráð.

Hættulegasta helgarnammið? Allt. Er búinn að fara allan hringinn og er á 20. hring (að minnsta kosti).

Hvernig er eggið best? Vel linsoðið, samt ekki til í stropað.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Frestunarárátta.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Ferköntun og íhaldssemi.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Mikið lítur þú vel út beibý, frábært hár! Góður vinur minn notar þetta stundum t.d. á mig.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Faðir minn dó ungur en ég var aðeins þriggja ára og ég á nokkrar svipmyndir af honum sem ég held mikið upp á.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Svona fyrir utan eitthvert góðverk sem hefði breytt heimssögunni, þá mundi ég vilja vera í þeirri stöðu að geta breytt orkulögunum á einum degi (sem er hægt ef viljinn er fyrir hendi).

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Þessi er líka ómöguleg en ég var að lesa Halldór Laxness um tvítugt og Salka Valka hafði mikil áhrif á mig. Held að allur þessi HKL lestur hafi mótað mikið réttlætiskennd mína.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Reddiði’essu!

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Hugleikur og Ari Eldjárn til að sjá um skemmtilegheitin, Dagur Sigurðarson kæmi sem ræðumaður kvöldsins og Hendrix til að græja eftirpartýið.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ætli ég mundi ekki fara til baka þegar ég var lítill strákur að kúra í kotinu hjá mömmu, það var alltaf næs.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Hann hafði rétt fyrir sér! – sjálfsævisaga besser-wissers.

Framlenging:

Óþarfi, maður vinnur leikinn í venjulegum... (þetta var kannski ekki spurning)...

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Til Kúbu, Hawaii og Tokyo (í þessari röð).

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til með að gera áður en þú gefur upp öndina: Skrifa skáldsögu, verða bóndi og ná einum +20 pundara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir