1238 ræður Þórð Grétar í starf sérfræðings í stafrænni miðlun
Þórður Grétar Árnason hefur verið ráðinn í starf sérfræðings í stafrænni miðlun hjá sýndarveruleikasýningunni 1238 - Baráttan um Ísland. Þórður hefur diplómu í margmiðlun frá Tækniskóla Íslands og mun sinna daglegri umsjón allra tæknikerfa og taka þátt í fjölbreyttum þróunarverkefnum fyrirtækisins á sviði stafrænnar miðlunar menningararfsins.
„Ég er menntaður margmiðlunarfræðingur en hef unnið við sjómennsku síðustu fimm ár þar sem ekki var að finna vinnu sem hæfir minni menntun hér á Sauðárkróki,“ segir Þórður í samtali við Feyki en hann býr með unnustu sinni, Lovísu Hlynsdóttur og þremur börnum þeirra á Króknum. „Það var algjör lukka að tengdamóðir mín benti mér á starfsauglýsinguna, og hvatti mig til að sækja um ekki seinna en núna. Ég sá strax að starfslýsingin hentaði minni menntun og áhugasviði.“
Á heimasíðu 1238 segir að sögusetrið sé gagnvirk og alltumlykjandi sýning sem færir sýningargesti mun nær sögulegum stóratburðum en hefðbundnar fræðslusýningar: „Með hjálp nýjustu tækni í miðlun og sýndarveruleika bjóðum við þér að taka þátt í átakamestu atburðum Íslandssögunnar og beinlínis stíga inn í sögu Sturlungaaldar.“
Þórður segist mjög spenntur fyrir framtíðinni í starfinu og vill nýta tækifærið og þakka starfsfólki 1238 kærlega fyrir hlýjar móttökur.